þriðjudagur, september 20, 2005

 

Reykjavík og fleira

Eins og það er gott að komast aðeins til Reykjavíkur þá er enn betra að koma aftur heim úfff hvað maður er heimakær. Höfðum það annars stórfínt í borginni, gistum á 5 stjörnu hóteli (Hótel Gullu og Braga), versluðum smotterí m.a. þetta fína handlóðasett í ræktina mína og eitthvað IKEA dótarí á heimilið, löbbuðum Laugaveginn í æðislegu veðri, fórum að gefa öndunum og síðast en ekki síst heimsóttum Kolaportið... jakkkk...... minnti mig á gamla markaðinn í Mexíkó en samt er mun verri lykt í Kolaportinu, keypti að vísu Manchester United stuttbuxur og bol á stelpuna í Koló og vakti það mikla lukku hjá henni.
Keypti mér líka íþróttabuxur....eftir mikla leit að hinum einu sönnu endaði á að fara í barnadeildina í Intersport og keypti mér þessar fínu NIKE íþróttabuxur í extra large fyrir "girls".... þar sem ég fann ekki nógu stuttar buxur á mig í dömudeildinni nema kvartbuxur - bömmer en þó ekki því buxurnar í barnadeildinni voru auðvitað mun ódýrari en dömubuxurnar, já það er hagstætt að vera smávaxin.
Fórum líka í hádegissnarl á Hressingarskálanum og það geri ég aldrei aftur því það var dýrt og vont og svo var stór geitungur að sveima yfir okkur allan tímann og vá hvað við biðum lengi eftir matnum.
Heimsóknin til tannsa gekk vel en hann að vísu skammaði mig og gaf mér spark í rassinn fyrir að vera löt að nota tannþráð - ég hata að nota tannþráð því þegar ég vef honum svona um puttann á mér þá stoppast allt blóðrennsli og puttinn verður blár - tannsinn var ekki lengi að redda því heldur prangaði inn á mig afar sniðugum tannþráðum svipað þessum + svaka flottum rafmagnstannbursta þannig að ég náði líka að versla hjá tannsanum ofan á allt annað.
Annars er fátt á döfinni á næstunni, jú erum búin að plana grill með Freyju og Gunnari Geir um þarnæstu helgi og eitthvað var minnst á nautasteik og humar í því samhengi og svo erum við hætt við að fara á árshátíð Sparisjóðsins. Skilst að frænkuklúbbur sé í vikunni - er það ekki Ása ??? og svo var verið að bjóða mér í annan saumó á fimmtudagskvöld sem er bara gott mál. Hingað og ekki lengra í dag.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<