föstudagur, september 30, 2005

 

The Apprentice

Hvaða ofurfólk er þetta sem fær að starfa hjá Donald Trump eiginlega... úff..... Allt sem kemur nálægt Trump verður risavaxið og fullkomið. Var ánægð með sigurvegarann í gær, var búin að halda með henni í dálítinn tíma eða þegar hún fór að trana sér aðeins fram í þáttunum, læddist meðfram veggjum þarna fyrst en það var víst partur af stratigíunni hennar til að komast sem lengst - sniðug stelpa.
Annars finnst mér Donald Trump alltaf verða flottari og flottari með hverjum þættinum og ég get varla beðið eftir næstu seríu af uppáhalds uppáhalds þættinum mínum.

fimmtudagur, september 29, 2005

 

Bleikt, bleikt, bleikt með prinsessuívafi

Hvað er þetta eiginlega með prinsessur og bleikan lit hjá stelpum. Dóttir mín talar ekki um annað en bleikan lit og prinsessur - ég veit...ekki lík mömmu sinni. Hún vill bleikan sandkassa, bleikt herbergi, bleikt hár, prinsessukjól, prinsessurúm, bleikt sjónvarp, bleika sósu, bleik föt og ef hún mætti ráða þá væri himininn bleikur. Hún mátaði fótboltalegghlífarnar mínar um daginn og vildi prinsessulegghlífar....bleikar auðvitað. Hún vill bara prinsessulitabók og það verður að vera bleikur litur í litakassanum. Hún vildi gefa afa sínum blóm í afmælisgjöf og hún fékk að velja þau - hún valdi auðvitað bleikan blómvönd. Ég varð hálf kvíðin þegar mjólkurumbúðunum var breytt fyrir nokkru síðan þannig að undanrennan sem ég nota fór í bleikar umbúðir en nýmjólkin sem hún notar í bláar umbúðir - hélt hún myndi bara vilja bleika mjólk hér eftir því blár er víst strákalitur en það bjargaðist.
Hún fær ósk sína uppfyllta um jólin. Hún fær að vera í bleikum prinsessukjól af Ernu sys síðan hún var lítil. Hún verður sko í skýjunum yfir því sú bleika.

miðvikudagur, september 28, 2005

 

Hreystin uppmáluð


...og hvað haldið þið að ég hafi vaknað við í morgun..... útvarpsvekjarann minn eins og vanalega nema hvað en í útvarpinu var verið að ræða Baugsmálið, hvað annað.....pirrretípirr, ég var ekki lengi að skella hendinni á "snooze".
Annars er maður á fullu í ræktinni þessa dagana. Hef reyndar verið ansi dugleg þetta árið að púla í hádeginu, vígði svo nýju handlóðin mín í gær og tók vel á .... harðsperrur í dag í öllum handleggsvöðvum. Hefði aldrei getað trúað því hvað góð og regluleg hreyfing skilar sér til manns í aukinni orku í daglega lífinu. Svo má hrósa www.s1.is, www.ruv.is og www.stod2.is fyrir vefsjónvarpið sitt. Það hefur algörlega bjargað mér og haldið mér við efnið að geta horft á hina ýmsustu þætti í gegnum fartölvuna á meðan ég púla - algjör snilld.
Nammiþörfin hefur samt sem áður ekki minnkað .... spurning hvort það gerist sjálfkrafa - hef ekki mikinn sjálfsaga í að neita mér um lakkrís og súkkulaði si svona held ég borði bara nammi með betri samvisku eftir að hafa byrjað að hreyfa mig ...eða á það ekki að vera öfugt hmmmmm ?

þriðjudagur, september 27, 2005

 

Baugur

Ég er að verða vitlaus á þessu Baugsmáli... það er ekki lengur hægt að horfa á fréttatímann í friði fyrir þessu. Ekki nóg með það heldur skil ég ekki neitt í neinu og hef ekki áhuga á að kynna mér þetta mál fyrir fimmaur. Þetta er eitt af þeim fréttamálum sem fá eyrun á mér ósjálfrátt til að lokast þegar það kemur upp.... og ekki nóg með það að þetta sé í fréttatímum, þetta er líka í ísland í dag, ísland í bítið, útvarpi og blöðum, held þetta sé verra en fjölmiðlafrumvarpið forðum daga.

mánudagur, september 26, 2005

 

Spaugstofan lengi lifi

Ég held ég fái aldrei leið á Spaugstofunni. Þeir eru snillingar. Á meðan sífellt er verið að koma upp nýjum og nýjum grínþáttum þá einhvern veginn tekst aldrei að sigra Spaugstofumenn - algjörlega flottastir.

föstudagur, september 23, 2005

 

Íþróttir barna



Eitt það mikilvægasta í uppeldi barna er að mínu mati íþróttir. Ég vona svo heitt og innilega að stelpan mín verði dugleg í íþróttum og kynnist þar af leiðandi hollum lífsháttum og góðum félagsskap. Ég bý enn að mínum íþróttaferli þó ég hafi hætt á unglingsárunum, ég var algjör íþróttafrík.
Í gær fór dóttir mín á sína fyrstu "æfingu". Hún er byrjuð í Íþróttaskóla ÍBV sem er greinilega mjög þarft verkefni hér í bæ. Stjórnendur bjuggust við um 35 krökkum en í gær voru mættir um 50 hressir og sprækir krakkar á aldrinum 3-5 ára. Krakkarnir fengu að kynnast hinum ýmsustu greinum svo sem eins og körfubolta, fótbolta og handbolta, fimleikum, klifri, hlaupum og leikjum. Stelpan var hin hamingjusamasta með þetta og vildi sko ekki hætta þegar tíminn var búinn. Hún er efnileg og sýnir mikinn áhuga á hverskyns íþróttum, segist ætla að verða fótboltastelpa og prinsessa þegar hún verður stór og er það nú ekki slæmt. Svo er bara að fara rétt að þessu, pressa ekki of en styðja þétt við bakið á henni við hvað sem hún velur sér og um að gera að leyfa henni að prófa sem flestar greinar.
Man eftir því þegar ég var yngri hvað mér fannst fimleikar ömurleg íþrótt, algjör stelpuíþrótt..... ég var sko strákastelpa og var í fótbolta og handbolta. Núna er hugsunin sem betur fer öðruvísi. Fimleikar eru án efa ein besta íþrótt sem hægt er að stunda, hún er góður grunnur í nánast hvað sem er. Stelpan fer pottþétt í fimleika á næsta ári, eða þegar hún hefur aldur til og svo sjáum við til. Kannski verður hún fimleikastjarna... nú eða fótbolta- og handboltastjarna..... ég verð þó ekki eldri ef hún verður sunddrottning því þar líkist hún allavega ekki mömmu sinni sem þorir ekki að stinga sér í vatnið en hún mun samt sem áður ráða ferðinni og vonandi velur hún rétt - að stunda íþróttir.

miðvikudagur, september 21, 2005

 

Mín komin á pensilínkúr og engan venjulegan sko.....

Hvaða ógeð er það að taka inn pensilín lyf með kattarhlandsfýlu ... ég er ekki að grínast það er sko kattarhlandsfýla af hylkjunum ojjjjjjbarasta. Vonandi virka bara þessar kattarhlandstöflur því annars þarf að taka fingurnöglina af mér á föstudaginn takk fyrir.

ps. þið sem eruð dugleg að kikka hér inn .... gætuð þurft að ýta á "refresh" svo nýtt blogg birtist, ég þarf allavega að gera það sjálf þegar ég kíki á hvað ég er að skrifa.

 

Algjört svekkelsi

Ég veit að maður á ekki að vera að pirra sig yfir svona smámunum en ég geri það samt. Ég fer stundum inn á umræðuvefinn á barnalandi og núna er ég steinhætt því, bara hætt að slysast þarna inn. Ástæðan: einhver hálfviti setti inn umræðu og maður þurfti að vera blindur til að sjá ekki hvað stóð í fyrirsögninni en þar kom fram hver vann ANTM (seríuna sem er nýbyrjað að sýna núna). Hvað er að fólki sem gerir svona og hvað fær þetta fólk útúr þessu ? Núna ætla ég að reyna að gleyma þessu nafni sem kom þarna fram og plata sjálfan mig því þáttinn ætla ég að horfa á til enda þó að það sé búið að eyðileggja ansi mikið. Argghhh og gargghhhh og pirrrrrr !!!

þriðjudagur, september 20, 2005

 

Reykjavík og fleira

Eins og það er gott að komast aðeins til Reykjavíkur þá er enn betra að koma aftur heim úfff hvað maður er heimakær. Höfðum það annars stórfínt í borginni, gistum á 5 stjörnu hóteli (Hótel Gullu og Braga), versluðum smotterí m.a. þetta fína handlóðasett í ræktina mína og eitthvað IKEA dótarí á heimilið, löbbuðum Laugaveginn í æðislegu veðri, fórum að gefa öndunum og síðast en ekki síst heimsóttum Kolaportið... jakkkk...... minnti mig á gamla markaðinn í Mexíkó en samt er mun verri lykt í Kolaportinu, keypti að vísu Manchester United stuttbuxur og bol á stelpuna í Koló og vakti það mikla lukku hjá henni.
Keypti mér líka íþróttabuxur....eftir mikla leit að hinum einu sönnu endaði á að fara í barnadeildina í Intersport og keypti mér þessar fínu NIKE íþróttabuxur í extra large fyrir "girls".... þar sem ég fann ekki nógu stuttar buxur á mig í dömudeildinni nema kvartbuxur - bömmer en þó ekki því buxurnar í barnadeildinni voru auðvitað mun ódýrari en dömubuxurnar, já það er hagstætt að vera smávaxin.
Fórum líka í hádegissnarl á Hressingarskálanum og það geri ég aldrei aftur því það var dýrt og vont og svo var stór geitungur að sveima yfir okkur allan tímann og vá hvað við biðum lengi eftir matnum.
Heimsóknin til tannsa gekk vel en hann að vísu skammaði mig og gaf mér spark í rassinn fyrir að vera löt að nota tannþráð - ég hata að nota tannþráð því þegar ég vef honum svona um puttann á mér þá stoppast allt blóðrennsli og puttinn verður blár - tannsinn var ekki lengi að redda því heldur prangaði inn á mig afar sniðugum tannþráðum svipað þessum + svaka flottum rafmagnstannbursta þannig að ég náði líka að versla hjá tannsanum ofan á allt annað.
Annars er fátt á döfinni á næstunni, jú erum búin að plana grill með Freyju og Gunnari Geir um þarnæstu helgi og eitthvað var minnst á nautasteik og humar í því samhengi og svo erum við hætt við að fara á árshátíð Sparisjóðsins. Skilst að frænkuklúbbur sé í vikunni - er það ekki Ása ??? og svo var verið að bjóða mér í annan saumó á fimmtudagskvöld sem er bara gott mál. Hingað og ekki lengra í dag.

fimmtudagur, september 15, 2005

 

Klukkuð !!!!

Eitthvað svakalegt æði er á ferðinni í bloggheimum. Hjördís vinkona mín Yo tók sig til og "klukkaði" mig og ég á því að koma með fimm "useless" upplýsingar um sjálfan mig. Gjörið svo vel :

1. Þoli ekki appelsínulykt. Þó ég sé að borða brauð með appelsínumarmelaði get ég ekki borðað það ef manneskjan við hliðina á mér er að borða appelsínu. Bananalykt er einnig mjög óvinsæl hjá mér.
2. Ég elska að fara í bíó. Þegar ég fer í bíó verð ég að sitja mjög framarlega í salnum svo ég sjái sem mestan mun frá sjónvarpinu heima.
3.Þegar ég sef í tjaldi verð ég að sofa með húfu og í ullarsokkum.
4.Ég hef aldrei dælt bensíni á bíl *roðn*
5.Ég tek upp pakka með akkúrat hálfs árs millibili. Á jólum (24. des) og á afmælisdaginn minn (24. júní). Stórmerkilegt.

Ég ætla svo að "klukka" Ásu frænku því hún er orðin svo svakalega virk á blogginu, Rögnu Jenný því hún kemur án efa með eitthvað ótrúlega fyndið, hana Laugu , pabba og Elísabetu sem er áreiðanlega með eitthvað krassandi. Pottþéttir pennar og koma svo !!!!!

miðvikudagur, september 14, 2005

 

Sýkingar og læti

Veit ekki hvað er í gangi með mig núna. Eins og það sé einhver tilboðsvika á sýkingum hjá mér. Fyrsta lagi byrjaði að grafa svona flott í puttanum mínum fyrir viku og núna er allt stokkbólgið, hjartsláttur og verkur og hiti í honum. Svo í öðru lagi fékk ég svona fína sýkingu í bæði augun. Ég get svarið það ég var eins og skrattinn sjálfur hérna á mánudaginn, með eldrauð augu, bólgin og þrútin og eins og ég hafi verið búin að grenja í heila viku. Er öll að koma til enda á einhverjum augndropum. Hvað er næst spyr ég bara ?

 

Algjörlega lost

Hvað á það að þýða að láta Lost enda eins og það endaði. Ég ætlaði bara ekki að trúa þessu. Hvenær fær maður svo að sjá næstu seríu ???? Veit einhver......

þriðjudagur, september 13, 2005

 

Framundan

Það verður kíkt í smá borgarreisu um næstu helgi (þó ekki lengra en í Reykjavíkina), alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi þó það sé nú alltaf best að koma heim aftur. Við familían erum búin að fá inni hjá Gullu og Braga (alltaf jafn gestrisin hjónakornin) og svo verður bara eitthvað gert í borginni, fer líklega drjúgur tími í heimsóknir og svo mun ég ef ég þekki mig rétt kíkja aðeins í Smáralindina, þarf að kaupa aðeins í IKEA og svoleiðis dótarí, einnig kaffihús og þetta vanalega sem sveitalubbinn gerir alltaf í Reykjavík, göngutúr í bæinn og vonandi fer ég líka í bíó. Svo má ekki gleyma aðal.... heimsókn til tannlæknana okkar, hlakka gífurlega til þess eða ekki.

sunnudagur, september 11, 2005

 

Timburmennirnir

Hér er þynnka, um þynnku, frá þynnku til þynnku ! Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tók ég ekki inn töfrapillurnar mínar (morning fit) áður en ég lagðist á koddann í nótt þegar ég kom heim og þau mistök geri ég aldrei aftur. Dagurinn í dag er því búinn að einkennast af mikilli þynnku og hugsunum á borð við..."það verður langt þangað til ég fæ mér í glas aftur"....
Skemmti mér annars konunglega á árgangsmótinu, fór aðeins fram úr mér í skotunum og solleiðis, fékk líka að finna fyrir því í dag. Hefði viljað sjá miklu fleiri andlit úr mínum bekk en þátttaka var ansi dræm úr Barnaskólanum, því miður. Það verða bara fleiri næst.
Ætla að fara snemma uppí rúm og lesa...... timburmennirnir eru sem betur fer farnir, þeir koma ekki á næstunni til mín, það er næsta víst.

föstudagur, september 09, 2005

 

Lestrartími

Ég er ekki mikill lestrarhestur... allavega ef ég miða við Hjördísi sys en á mína spretti. Fór á Bókasafnið um daginn í tilefni skammdegiskomunnar og tók "Svo fögur bein"... er búin að lesa nokkrar blaðsíður og hún lofar ansi góðu.
Finnst alltaf tilheyra að fara á bókasafnið þegar fer að dimma. Í fyrra tók ég einn þriðja af Ísfólkinu, hætti á 17. bók, fannst þetta orðið frekar þunnt og ruglingslegt en fyrstu bækurnar voru æðislegar.
Ég er ekki komin inn á að lesa bækurnar eftir Arnald, sakamálasögur, ástarsögur og þessháttar. Hef bara aldrei haft gaman af sakamálum, hvorki í sjónvarpi né lestri og svo eru þessar ástarsögur allar eins. Á unglingsárunum las ég Stephen King og bara hann. Núna er ég algjörlega inná svona lífsreynslusögum, örlagasögum og sögum sem gerast kynslóð eftir kynslóð, finnst þær svo forvitnilegar og ævintýralegar. Í fyrra tók ég líka bækurnar eftir Dave Pelzer um "Drenginn sem var kallaður þetta"... hún var hroðaleg og með ólíkindum að hún sé sannsöguleg. Einnig las ég bækurnar hennar Jean M. Auel (sögur sem gerast fyrir 35 þúsund árum) og mæli ég hikstalaust með henni fyrir ævintýraunnendur, Brynjar náði varla sambandi við mig á meðan ég var með þær.
Hvaða bækur eruð þið að lesa í dag ?

fimmtudagur, september 08, 2005

 

Veggfóður


Var að horfa á nýja "Innlit/Útlit" þáttinn á Sirkus í gær (endurtekningu á veftíví stöðvar 2), Veggfóður heitir víst þátturinn. Mér brá nú aldeilis í brún þegar kíkt var í eina íbúðina sem var svo bara gamla íbúðin okkar Brynjars á Bergstaðastrætinu sem við leigðum í þrjú ár. Það besta var að íbúðin var nákvæmlega eins og þegar við vorum þarna nema það var búið að stúka aðeins af skotið sem við vorum með rúmið okkar, annars allt eins. Sniðugt og jiii hvað maður á góðar minningar þaðan.

miðvikudagur, september 07, 2005

 

Hrollur

Ég get sagt ykkur það að ef ég hefði lent í því að finna þetta ógeðis ógeð bakvið sjónvarpið heima hjá mér þá hefði ég án gríns og án allra málalenginga farist úr hræðslu. *Kaldsveittur hrollur langt niður á tær*

þriðjudagur, september 06, 2005

 

Fullt af nýjum myndum

Búin að vera ótrúlega dugleg... var að bæta við tveimur myndalinkum; af ættarmótinu og þrítugsafmælinu hans Brynjars. Endilega kíkið !

mánudagur, september 05, 2005

 

Forvitnilegt þetta

Það er næsta víst að ég ætla að sjá þessa mynd þegar hún kemur í sýningar.... og ekki eru það lögin sem draga að í þetta skiptið....hmmmmmm

föstudagur, september 02, 2005

 

"Óverjandi"



Er eitthvað óverjandi ?
Alltaf fer það jafn mikið í taugarnar á mér þegar íþróttafréttamenn tala um að "stórglæsilegt mark hafi verið skorað og algjörlega óverjandi fyrir markmanninn".......hey ekki vildi ég standa í marki og verja það fyrir hinu liðinu ef eitthvað væri óverjandi fyrir mig. Myndi skilja þetta ef markið væri 5 metrar á hæð og efsta hlutann væri einfaldlega ekki hægt að verja vegna hæðar. Það væri skv. minni skilgreiningu óverjandi fyrir markmanninn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<