föstudagur, september 23, 2005

 

Íþróttir barna



Eitt það mikilvægasta í uppeldi barna er að mínu mati íþróttir. Ég vona svo heitt og innilega að stelpan mín verði dugleg í íþróttum og kynnist þar af leiðandi hollum lífsháttum og góðum félagsskap. Ég bý enn að mínum íþróttaferli þó ég hafi hætt á unglingsárunum, ég var algjör íþróttafrík.
Í gær fór dóttir mín á sína fyrstu "æfingu". Hún er byrjuð í Íþróttaskóla ÍBV sem er greinilega mjög þarft verkefni hér í bæ. Stjórnendur bjuggust við um 35 krökkum en í gær voru mættir um 50 hressir og sprækir krakkar á aldrinum 3-5 ára. Krakkarnir fengu að kynnast hinum ýmsustu greinum svo sem eins og körfubolta, fótbolta og handbolta, fimleikum, klifri, hlaupum og leikjum. Stelpan var hin hamingjusamasta með þetta og vildi sko ekki hætta þegar tíminn var búinn. Hún er efnileg og sýnir mikinn áhuga á hverskyns íþróttum, segist ætla að verða fótboltastelpa og prinsessa þegar hún verður stór og er það nú ekki slæmt. Svo er bara að fara rétt að þessu, pressa ekki of en styðja þétt við bakið á henni við hvað sem hún velur sér og um að gera að leyfa henni að prófa sem flestar greinar.
Man eftir því þegar ég var yngri hvað mér fannst fimleikar ömurleg íþrótt, algjör stelpuíþrótt..... ég var sko strákastelpa og var í fótbolta og handbolta. Núna er hugsunin sem betur fer öðruvísi. Fimleikar eru án efa ein besta íþrótt sem hægt er að stunda, hún er góður grunnur í nánast hvað sem er. Stelpan fer pottþétt í fimleika á næsta ári, eða þegar hún hefur aldur til og svo sjáum við til. Kannski verður hún fimleikastjarna... nú eða fótbolta- og handboltastjarna..... ég verð þó ekki eldri ef hún verður sunddrottning því þar líkist hún allavega ekki mömmu sinni sem þorir ekki að stinga sér í vatnið en hún mun samt sem áður ráða ferðinni og vonandi velur hún rétt - að stunda íþróttir.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<