föstudagur, desember 29, 2006

 
Furðulegt. Fór á Mýrina í bíó í gær og fannst hún æði. Las hinsvegar bókina í sumar og fannst hún hörmuleg..........hmmmmm.... yfirleitt er þetta nú öfugt. Fannst myndin í alla staði góð en ég átti dáldið bágt með mig í byrjunaratriðinu...enda um að ræða veika og svo látna stelpu jafngamla dóttur minni. Ég á alltaf erfitt með að horfa á svona.

Svo eru áramótin á næsta leyti. Óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á nýju ári !!!



miðvikudagur, desember 27, 2006

 
Jæja þá... þá er fjörið yfirstaðið og hversdagsleikinn tekinn við á ný. Mætti allt allt of seint í vinnu í morgun enda er ansi erfitt að koma sér á fætur og viðurkenna það að jólafríið sé búið.
Ég hafði það ofsalega gott um jólin eins og endranær. Fékk fullt af fallegum gjöfum og ber þar hæst samlokusíminn sem mig hafði dreymt um og hafði næstum kostað hjónaskilnað... ég bara skildi ekki afhverju Brynjar var svona þrjóskur á að gefa mér ekki símann í jólagjöf... sama hvað ég nauðaði í honum.. nei nei ég fengi engan síma frá honum samt var hann í vandræðum með hvað hann ætti að gefa mér. Það kom svo upp úr kafinu að hún móðir mín hafði hringt í hann snemma í desember og sagst ætla að gefa mér símann þannig að símann góða fékk ég frá foreldrum mínum og alveg alsæl með það og skildi loksins þennan þrjóskugang í Brynjari greyinu.





Eins og alltaf eru jólin sjónvarpsveisla hjá sjónvarpssjúklingnum.....
Horfði á æðislega mynd í gær; Blóðbönd..... vill einhver segja mér hvaðan þessi leikari kemur sem lék augnlækninn... jiiiiminn eini þvílíkur sjarmör. Tók upp Sálina og Gospel og horfi kannski á það ef ég nenni.... týndi áhuga mínum á Sálinni á árinu sem er að líða. Tók upp Harry Potter 3 og hlakka til að sjá hana. Horfði á fyrri hlutann um fljóðbylgjuna í Asíu og hlakka til að sjá seinni hlutann. Horfði á fullt af teiknimyndum og tók upp Shrek 2, alltaf gaman að eiga góðar teiknimyndir fyrir stelpuna... og mig híhíhí. Hjördís kom með seríu 3 af OC og ég er að klára seríu 2. Er svo að lesa Móðir í hjáverkum og hún er bara fyndin.
Hvað er betra en góð náttföt, hlýir innisokkar (bleikir), konfekt á borðum, jólaöl, góð mynd í sjónvarpinu og lítil stelpa sem segir að ég sé "uppáhaldsmamman sín" ???? ... lovlí.

mánudagur, desember 18, 2006

 


Við Brynjar vorum að rífast um jól á Íslandi og jól á sólarstöðum eins og Kanarí. Eitthvað misskildi hann mig og fannst ég segja að það væru engin jól við sólarströndina. Mér finnst kannski engin jól við sólarströndina en ég er ekki að segja að það séu engin jól þar. Mér finnst bara ekkert jólalegt við bikiní, gullnar strendur, hita og sól. Ég myndi aldrei vilja eyða jólunum á sólarströnd. Ég vil bara vera heima hjá mér um þennan tíma með myrkrið og kuldann og ég get ekki skilið allan þennan fjölda af fólki sem ætlar að eyða þessum dýrmæta tíma á sólarströnd, en það er bara ég og ég er spes. Hvað finnst ykkur ? Hvort finnst ykkur jólalegra...............










Sólarlandajól eða "vetrarogkuldajól"

Þó að hvítu jólin séu sjaldséð hér þá finnst mér þetta ekki spurning. Svo þekkir fólk í heitu löndunum auðvitað ekkert annað en sól og hita á jólum. Hvað er maður annað en vaninn.

Ég er komin í (blogg) jólafrí. Farin að dansa "snjódansinn".

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

föstudagur, desember 15, 2006

 
Þetta var eitt það allra krúttulegasta sem ég hef séð. Fór á helgileikrit á leikskólanum hjá dömunni og jiiii þetta var yndislegt. Var auðvitað eins og óð mamma með videóvélina, ómetanlegur dýrgripur festur á filmu.
Kíkti með mömmu og litlunni í gær á tónleika með Kaffihúsakórnum og skemmti mér ofsalega vel. Þarna eru frábærir söngmenn og konur. Frábær og vel útsett lög og kórinn sjálfur kom mér virkilega á óvart, held ég verði hér með fastagestur á tónleikum Kaffihúsakórsins.

mánudagur, desember 11, 2006

 
Ég hata öll þessi ógeðslegu banaslys í umferðinni. Mér finnst þessi dauðsföll svo mikill óþarfi. Ég get á engan hátt skilið að foreldrar missi fimm ára dóttur sína og að átta ára sonur þeirra örkumlist í bílslysi á sama tíma. Ég get ekki skilið hvernig það er hægt að leggja svona hrylling á fólk. Hvað er að gerast með ökumenn í dag. Það er svo mikið um tryllta og æsta ökumenn sem finnst þér vera að missa af öllu ef þeir aka á löglegum hraða. Það þarf að breikka vegina á helstu álagspunktum vegakerfisins og það þarf að gerast strax ég nenni ekki að hlusta á fleiri banaslystilkynningar.... með tilliti til þess sem ítölsku ferðamennirnir sögðu um þjóðvegina okkar "þetta eru mjóir sveitavegir"..... það er rétt, þeir eru allt of mjóir og hlykkjóttir.

föstudagur, desember 08, 2006

 
Ég er bara ekki alveg að venjast því að hlaupa úti í sól og blíðu í desember með jólalög í eyrunum. Finnst bara eitthvað skrýtið við það.

fimmtudagur, desember 07, 2006

 
Mér finnst nú lágmark að Jóladagatal Sjónvarpsins sé jólalegt. Ég get ekki séð neitt jólalegt við þetta sem er í gangi núna (sem er líka endursýnt frá 1991), það er ekki einu sinni snjór.

miðvikudagur, desember 06, 2006

 
Aldrei, aldrei hefði mér dottið í hug að ég skyldi segja þetta en ég segi það hér og nú, ég er komin með svo mikinn leiða á Sálinni hans Jóns míns, komst að því þegar ég sá myndband með þeim og Gospel að ég bara fékk smá ógeð. Þetta eru allt sömu lögin fram og til baka hvort sem það er með Gospel, órafmagnað eða með Sinfóníuhljómsveitinni. Sorry. Mér finnst að þeir hefðu átt að vera fyrir löngu búnir að taka sér aftur langa pásu. Þetta er svona svipað og þegar við Brynjar vorum að keyra norður á Sigló hér í den og eini diskurinn í bílnum var Cat Stevens..... hann Brynjar setti hann í tækið í Reykjavík og slökkti á honum þegar við vorum komin á leiðarenda. Síðan þá fæ ég flensu og gubbupest þegar minnst er á Cat Stevens... ég held ég sé meira að segja búin að fela diskinn góða en man ekki hvar.

þriðjudagur, desember 05, 2006

 
Jiii ég er enn að skreyta..... alltaf að fatta eitthvað eitt og eitt sem ég gleymi en það er bara gaman. Brynjar spurði mig um daginn hvort þetta væri ekki komið nóg.....nei nei nei......

Næst á dagskrá eru jólakortin.... sá svo fyndið um daginn og það væri gaman ef Brynjar héti Finnur og ég ætti fullt af börnum. Þá gæti ég alltaf verið rosalega fyndin á jólakortunum; "Gleðileg jól gott og farsælt komandi ár, þakka liðið. Matta, Finnur, börnin" eða.... "Finnur, Matta, börnin" (?)..... mér fannst þetta alveg óborganlegt enda er ég með mjög einfaldan húmor. Annars er þetta bara alltaf sama setningin á þessum jólakortum .... samt gaman að vesenast í þessu.

Það er annars bara búið að vera brjálað að gera hjá minni síðustu daga... nóg að snúast og vinkona mín er farin að kvarta yfir öllum þessum "sýnishornaheimsóknum" sem ég gef henni. Eins gott að eiga ekki jólagjafirnar eftir.

mánudagur, desember 04, 2006

 
Horfði á skemmtidagskránna v. Rauða nefsins á Stöð 2 á föstudagskvöld... eiginlega samt með öðru auganu. Ég átti hinsvegar ekki til orð í lokin þegar síðasta tónlistaratriðið kom, bjóst sterklega við að Baggalútur skyldi flytja "Brostu" enda búið að vera einkennislag þessarar söfnunarherferðar en nei nei viti menn kom ekki bara Ómar Ragnarsson með eitthvað bull þarna. Var bara alls ekki að fatta þetta.

föstudagur, desember 01, 2006

 
Hvað er eiginlega með svart jólaskraut ??? Get með engu móti vanist því.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<