fimmtudagur, ágúst 31, 2006

 

Nú verð ég örugglega drepin en jæja ég læt það flakka. Ég er ekkert smá hneyksluð á þessum áróðri fyrir að kjósa Magna og sérstaklega auglýsingunni með tónlistarmönnunum sem hrópa "áfram Magni" og biðja mann svo um að kjósa hann áfram. Sorry.... ég fékk svo þvílíkan kjánahroll þegar í ljós kom í gær að hann var bara langefstur og hverjum er það að þakka... jú.... íslendingum sem vöktu fram á nótt og kusu hann aftur og aftur og aftur og aftur..... þeir þarna sem stjórna þessu hljóta bara að fatta hvað er í gangi.
Annars fannst mér Toby geðveikislega flottastur og ég hefði kosið hann hefði ég nennt að vaka eftir þessu. Mér finnst það bara alltaf þannig að sá besti eigi skilið að vinna.

Þetta er síðasti dagurinn minn í fríinu.... byrja á morgun í vinnu og þá eru níu mánuðir í næsta sumarfrí - hversu niðurdrepandi er það en jæja það verður fljótt að líða.

mánudagur, ágúst 28, 2006

 
Datt inní umræður á barnalandi um eyrnagötun hjá smástelpum og þá er verið að tala um yngri en sex ára. Ég blandaði mér nú ekki í þessar umræður frekar en fyrri daginn en ég fór samt að pæla í þessu. Ég hef alveg skoðun á þessum eyrnalokkagötunum á smábörnum og hún er einfaldlega sú að mér finnst þetta algjörlega óviðeigandi og ég skil ekki þegar þetta er gert. Sorry þið öll og vinir mínir sem hafið látið gata litla eyrnasnepla .... þið hafið auðvitað ykkar skoðun á þessu og ég virði hana. Ég myndi hinsvegar ekki gera þetta. Ef dóttir mín myndi biðja mig um eyrnalokka, mér myndi bara bregða og segja þvert NEI, í fyrsta lagi um fermingu litla mín.
Hver er tilgangurinn með eyrnalokkum á t.d. 3 ára stelpum ? Þetta eru smábörn. Allt annað finnst mér um t.d. svona eyrnalokkalímmiða upp á fönnið... finnst það ekki sami hluturinn og að gata börnin eins og gert er við fullorðna. Þessi hlutur minnir mig bara á gallabuxurnar og mínítoppinn sem var til í Hagkaup ætlað fjögurra ára stelpum og á stóð "sexy".
Svo er kannski ekkert að marka mig í þessum málum, ég er t.d. ekki með göt í eyrum og nota aldrei hringa - ég er lítil glingurkona og kannski kristallast skoðanir mínar á smábarnaeyrnagötunum í því.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

 
Ástæðan fyrir stopulu bloggi frá mér síðustu viku er þjófurinn hann Brynjar sem er víst búinn að stela tölvunni "minni". Hann þykist vera að nota hana í tengslum við skólann og ég hef því ekkert getað bloggað.
Langaði til að segja frá IKEA ferð minni þegar ég var í Reykjavík í síðustu viku... stoppaði að vísu hrikalega stutt í borginni eða frá klukkan 13-18 þann dag og var hann nýttur í minni elskulegu Smáralind + fleiri búðir.. en ég fór sem sagt í IKEA og ég var sko ekki hamingjusöm með þá ferð. Hvernig geta þeir verið með búð þegar á 90% miðum á húsgögnum stendur "Vara ekki til en væntanleg og vinsamlega hafið samband við starfsfólk". Vá hvað búðin hlýtur að þurfa að fjölga starfsfólki til að sinna þessum beiðnum. Ég held ég hafi kíkt á fjögur skrifborð á pínulitlum radíus og öll voru með þennan miða á sér. Hef líka lent í því að ætla að panta vörur á vefnum hjá þeim en alltaf skal vera hringt í mig og eitthvað vantar....... en steininn tók úr um daginn þegar allar fimm vörurnar sem ég pantaði voru ekki til. Samt fer ég alltaf aftur og aftur í IKEA.

Brynjar var að tilkynna mér það að hann ætlar að gerast mormóni í UTAH.....

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

 
Fórum í dagsferð á Akureyri í gær og það var nú bara fínt. Brynjar elskar Akureyri meira en mig og honum langar svo að eiga heima þar og það er allt svo fullkomið á Akureyri og þar fær hann Greifapizzu og kemst á skíði og niður gilið og þar er svo snyrtilegt og og og og blablablablablabala.......en NEI TAKK myndi nú ekki vilja búa þar þó mér finnist gaman að fara þangað svona stöku sinnum. Það er þrennt sem maður gerir alltaf þegar maður fer á Akureyri; fara á Greifann og fá sér pizzu númer 15 (skinka, bananar, gráðostur og sveppir), Brynjuís og í Glerártorgið. Skil samt ekki afhverju ég fer alltaf í Glerártorgið því ég verð alltaf fyrir jafn miklum vonbrigðum með það og enda alltaf á að kaupa ekki neitt þarna. Svo keyrum við alltaf framhjá sundlauginni og þar blasir við þessi svaka rennibraut og litla skottan tryllist þegar hún sér hana en mamman segir alltaf að við förum bara næst...úfff hversu lengi ætli ég komist upp með þetta... held það þýði ekki lengur að "gleyma" sundfötunum á Sigló. Ég sjálf hef samt fína afsökun, ég á ekki sundföt og ég er að leita að þeim fullkomnu sem passa mér fullkomnlega. Haldari með "wonderbra" og boxerbuxur og ekki væri verra ef svona stuttbuxnaboxersundbuxur kæmust í tísku hjá kvenþjóðinni - held ég færi í sund á hverjum degi þá, alveg laus við spéhræðsluna.
Hafiði farið í jólahúsið á Akureyri ??? Jiiii ég missti mig þarna og ef einhver hefði spurt mig hvað ég væri gömul hefði ég vafalaust sagst vera 8 ára. Ég fór á klósettið þó ég þyrfti ekki að pissa bara til að fá réttu stemmninguna. Keypti mér jólareykelsi, jólanammi.... og ef Brynjar hefði ekki verið með hefði ég líklega spurt um vinnu þarna. Þetta var æði.... og fékk svo "jingle bells, jingle bells" á heilann og söng það inní mér á leiðinni til baka með sólgleraugu í bongóblíðu.
Fórum í berjamó í dag og ég komst að því að berjamó er einn minn helsti Fear Factor. Ég fékk köngulóarvef á mig, þar eltu mig vespur og hunangsflugur og ég held ég hafi talið fleiri köngulær en ber.... "vínber" eins og skottan segir. Berjamóurinn..mórinn....móið... eða hvernig sem þetta er sagt var sem sagt þakið köngulóarvef og á endanum hélt ég mig bara til hlés og íhugaði alvarlega að setja buxurnar ofaní sokkana, svona til öryggis.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

 
Nú er kellan og co stödd á Sigló og verðum hér eitthvað fram í næstu helgi. Fórum "suður" á laugardaginn eins og við Eyjamenn segjum alltaf þó við séum í rauninni að fara í norður þegar við förum upp á land. Fór með stútfullum Herjólfi og það heyrir orðið til undantekninga að Herjólfur sé ekki stútfullur þegar ég fer með honum og ég fer bara nokkuð oft. Þetta er eitt það leiðinlegasta sem ég lendi í = stútfullur Herjólfur og það er bara pirrandi þegar maður þarf gjörsamlega að passa sætið sitt svo maður missi það ekki. Gleymi því ekki þegar ég fór einu sinni með Herjólfi bálólétt og lenti einmitt í honum svona fullum og ég fékk ekki sæti allan tímann.... já bálólétt og þurfti að standa stóran hluta ferðarinnar en settist svo að lokum inn í barnasal á gólfið.... það var ekkert spes ferð. Annars þykir mér fínt að ferðast með Herjólfi, bara næs sko.
En jæja hvað um það... fórum á Gay Pride gönguna í gær og það var í að ég held þriðja sinn sem við fórum á hana og það var auðvitað bara fjör en stoppuðum of lengi þar því ég komst eiginlega ekkert í Smáralindina og það var ekki vinsælt hjá minni. Brynjar náði að plata mig svona heiftarlega með tímanum að ég komst eiginlega bara í Hagkaup og búið en ég á alltaf heimleiðina í bakhöndinni og þá kíki ég örugglega ef hann platar mig ekki aftur. Brunuðum svo á Sigló eftir að hafa fengið okkur að borða og við fórum í veðmál um hvenær við yrðum komin að "Velkomin til Siglufjarðarskiltinu" og það veðmál var gert í Mosfellsbæ um sjöleytið. Brynjar sagði 23:07, ég sagði 23.22 og Ingvar sagði 23:30.
Ég var stjarnfræðilega nálægt tímanum því við vorum við skiltið klukkan 23:21.... ótrúlegt !
Í dag erum við svo bara búin að vera að berjast við krakkana .... Linda Björk og Christian Glói frændi hennar eru bara eins og Tommi og Jenni.
Á morgun verður því áreiðanlega haldið áfram að berjast við krakkana og þarnæsta dag og hinn........ og svo skilst mér að Tommi fari suður með foreldrum sínum og þá verða örugglega rólegheit + ætlunin að kíkja á Akureyri einn dag, ég, Brynjar, Ingvar og Jenni.... og bara eitthvað eftir hendinni enda er maður í fríi.... eða var ég nokkuð búin að minnast á það...hehehehe.
Ég er líka að lesa stórkostlega bók. Blekkingarleikur eftir Dan Brown. Ég bara get varla slitið mig frá henni, las hana t.d. nánast alla keyrsluna í gær ... algjör prinsessa á meðan Brynjar keyrði og reyndi að tala við mig.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

 

Jæja þá er Þjóðhátíðin afstaðin og heppnaðist hún bara alveg ágætlega þrátt fyrir nokkuð mikla bleytu... og þá er ég að tala um útvortis bleytu. Ég var bara nokkuð fegin á mánudagsmorgun þegar þetta allt var afstaðið enda orðin þreytt og annaðhvort er því um að kenna að ég sé orðin gömul eða að ég er farin að detta svo sjaldan í það að ég bara þoli ekki meir.
Veðrið var samt frábært á föstudeginum... og skein sólin glatt á setningunni.












Tjaldbúskapurinn með Ásu gekk frábærlega enda eðalstelpa þar á ferð.
Ég skemmti mér vel og það var frábært að hafa hana Siggu hér hjá okkur og ég býst fastlega við henni að ári... best að fá sér þá svona ungbarnakönnur með stút á svo hún helli ekki meir niður...hhehehehehehe.







Vonbrigði hátíðarinnar voru samt þau að Raggi Bjarna mætti ekki og var ég bara frekar fúl yfir því. Ég beið og beið og beið uppí brekku á föstudagskvöldinu, pissaði næstum á mig þar sem ég tímdi ekki að fara á kamarinn en aldrei kom hann - asnalegt að auglýsa manninn en svo mætir hann bara ekki.



Mér fannst frábært að hafa stelpuna með mér á kvöldin. Hún er agaleg Þjóðhátíðarmanneskja og verður einhverntímann góð... hoppaði í brekkunni eins og unglingur, söng og trallaði.
Tjaldpartýin klikkuðu ekki og ég fór aldrei á danspallinn.. eins og í fyrra og jú mér finnst það bara ekkert sniðugt. Ætla að bæta úr því næst og fara á pallinn.



Núna er ég svo bara áfram í fríi og veit bara ekkert hvað ég á af mér að gera. Verð ein í kotinu með stelpunni á morgun þar sem Brynjar fer upp á land í skólann. Við mæðgur erum svo að spá í að skella okkur norður á Sigló um helgina eða eftir helgi... bara spáum í því í rólegheitum.

Nokkrar myndir frá Þjóðhátíðinni hér.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

 
Í morgun var litla fjölskyldan komin á bæjarröltið klukkan hálf tíu og hananú, já svona er að vera í sumarfríi .... ég vaknaði meira að segja með bros á vör.
Í dag var haldinn Þjóðhátíðarfundur hjá okkur Ásu og var hann haldinn uppí brekku inní dal við mjög ákjósanlegar aðstæður, sól, logn og hiti. Þar sátum við með kaffi og meðþví... hrikalega flottar á því. Á fundinum var rætt um hvað ætti eftir að kaupa, hvað ætti eftir að baka, hvaða húsgögn við þyrftum að græja inní dal, hvort við ættum að setja plast í tjaldið og jú.... eftir að hafa séð veðurspánna held ég að við þurfum að klæða tjaldið með plasti og jafnvel okkur sjálfar líka oh my god rigningarspáin sko en sem betur fer er maður búin að kaupa regnhattinn.
Annars er allt að gerast; Lundinn kominn í frystinn, búin að smyrja flatkökur líka í frystinn, muffins og sjónvarpskakan, bjórinn og það allt liggur hérna á gólfinu í pokum merktum ÁTVR, ég kann ekki Þjóðhátíðarlagið og legg bara ekki í það aftur, súpukjötið í kjötsúpuna ready og búið að búa um hana Siggu mína, núna er bara að bíða.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<