fimmtudagur, ágúst 17, 2006

 
Fórum í dagsferð á Akureyri í gær og það var nú bara fínt. Brynjar elskar Akureyri meira en mig og honum langar svo að eiga heima þar og það er allt svo fullkomið á Akureyri og þar fær hann Greifapizzu og kemst á skíði og niður gilið og þar er svo snyrtilegt og og og og blablablablablabala.......en NEI TAKK myndi nú ekki vilja búa þar þó mér finnist gaman að fara þangað svona stöku sinnum. Það er þrennt sem maður gerir alltaf þegar maður fer á Akureyri; fara á Greifann og fá sér pizzu númer 15 (skinka, bananar, gráðostur og sveppir), Brynjuís og í Glerártorgið. Skil samt ekki afhverju ég fer alltaf í Glerártorgið því ég verð alltaf fyrir jafn miklum vonbrigðum með það og enda alltaf á að kaupa ekki neitt þarna. Svo keyrum við alltaf framhjá sundlauginni og þar blasir við þessi svaka rennibraut og litla skottan tryllist þegar hún sér hana en mamman segir alltaf að við förum bara næst...úfff hversu lengi ætli ég komist upp með þetta... held það þýði ekki lengur að "gleyma" sundfötunum á Sigló. Ég sjálf hef samt fína afsökun, ég á ekki sundföt og ég er að leita að þeim fullkomnu sem passa mér fullkomnlega. Haldari með "wonderbra" og boxerbuxur og ekki væri verra ef svona stuttbuxnaboxersundbuxur kæmust í tísku hjá kvenþjóðinni - held ég færi í sund á hverjum degi þá, alveg laus við spéhræðsluna.
Hafiði farið í jólahúsið á Akureyri ??? Jiiii ég missti mig þarna og ef einhver hefði spurt mig hvað ég væri gömul hefði ég vafalaust sagst vera 8 ára. Ég fór á klósettið þó ég þyrfti ekki að pissa bara til að fá réttu stemmninguna. Keypti mér jólareykelsi, jólanammi.... og ef Brynjar hefði ekki verið með hefði ég líklega spurt um vinnu þarna. Þetta var æði.... og fékk svo "jingle bells, jingle bells" á heilann og söng það inní mér á leiðinni til baka með sólgleraugu í bongóblíðu.
Fórum í berjamó í dag og ég komst að því að berjamó er einn minn helsti Fear Factor. Ég fékk köngulóarvef á mig, þar eltu mig vespur og hunangsflugur og ég held ég hafi talið fleiri köngulær en ber.... "vínber" eins og skottan segir. Berjamóurinn..mórinn....móið... eða hvernig sem þetta er sagt var sem sagt þakið köngulóarvef og á endanum hélt ég mig bara til hlés og íhugaði alvarlega að setja buxurnar ofaní sokkana, svona til öryggis.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<