þriðjudagur, nóvember 29, 2005

 

Í Reykjavík

Já svei mér þá... held ég sé bara komin í jólagírinn. Eyddum helginni í Reykjavíkinni með tengdó við jólagjafainnkaup og fleira í þeim dúrnum. Ég æddi um Smáralindina, Kringluna, IKEA og Rúmfatalagerinn eins og Paris Hilton. Labbaði líka Laugaveginn í æðislegu veðri og dimmu og kulda þar sem jólaljósin fengu að njóta sín í botn. Komst svo að því um kvöldið að ég hafi verið sérdeilis heppin með að hafa ekki farið fyrr um daginn niður Laugaveginn - það var nefnilega einhver "#%$&/""$% hundaganga og þið getið rétt ímyndað mér mig labbandi innan um fjölda hunda og stolta hundaeigendur ... úfff get bara ekki hugsað til þess en sem betur fer lenti ég ekki í því. Á þessum fjórum dögum í Reykjavík fór ég tvisvar í bíó, já geri aðrir betur. Fór með Hjördísi sys á Exorcism of Emily Rose. Já ... ég er ekki að grínast, ég fór á þessa mynd og ég held ég hafi aldrei orðið eins hrædd. Leist ekki orðið á blikuna rétt fyrir hlé og var búin að ákveða að fara út í hléinu og bíða bara eftir Hjördísi fyrir utan en ég lét mig hafa það og hafði úlpuna mína mér til varnar og skellti henni fyrir augun á mér í verstu hrinunum. Eftir myndina sá ég bara mjög eftir að hafa farið á þessa mynd því mér leið það illa.... sem betur fer voru allir ennþá vakandi þegar ég kom aftur inn í íbúð og öll ljós kveikt. Fyrsta sem ég gerði var að snúa útvarpsvekjaranum við þannig að ég sæi ekki hvað klukkan væri og það virkaði... vaknaði að vísu nokkuð oft um nóttina en náði aldrei að sjá hvað klukkan væri enda er ég viss um að ég hefði fríkað út við að sjá 03:00. Þessi mynd var samt rosalega góð en ekki fyrir viðkvæmar sálir eins og mig. Daginn eftir kíkti ég svo á öllu léttari mynd með Lindu Björk - "Litli kjúlli" og hún var nú bara ansi skemmtileg og fyndin.
Það fór lítið fyrir heimsóknum... eða eiginlega ekki neitt... fórum í eitt morgunkaffi með tengdó og svo ekki söguna meir. Náði að versla allar jólagjafir og nú er bara eftir að kaupa hamborgarhrygginn og meðlætið og þá geta bara jólin komið hjá mér.... æ nei ætla að skreyta um næstu helgi og svo er þetta komið og þá er bara að njóta aðventunnar í botn - ekkert stress.
Mikið vildi ég óska þess að ég gæti keypt súkkulaðikökuísinn hans Jóa Fel hérna í Eyjum... besti ís í heimi en fæst því miður aðeins þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla... eitthvað sem ég er alveg sammála - það er bara allt til þar.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

 

Hulduslóð

Byrjaði á nýrri bók í gær "Hulduslóð" og hún er algjörlega að heltaka mig strax. Skrýtið hvað ein bók getur haft mikil áhrif á mann - mér fannst ég vera að horfa á atburðarásina í sjónvarpi ég lifði mig svo inní hana. Á stuttum tíma fann ég fyrir mikilli geðshræringu, reiði og svo láku tárin. Hlakka til að lesa meir í kvöld og takk Íris Dögg fyrir að benda mér á hana ;o)

Er svo með nokkrar í sigtinu fyrir jólin eins og "Það býr Íslendingur hér", "Óskilabarn 312" og svo er ég með Da Vinci lykilinn á náttborðinu en ég er eitthvað hrædd við hana... þori ekki að byrja á henni.

mánudagur, nóvember 21, 2005

 

Bla bla....

Eitthvað er maður andlaus og latur í dag og ekki er frá mörgu að segja enda hinn frægi mánudagur en það styttist óðum í helgina.
Eggert Skúlason hitti aldeilis naglann á höfuðið á föstudaginn þegar hann sagði eitthvað á þessa leið: "...að hommar og lesbíur ættu að hafa nákvæmlega sömu mannréttindi og annað fólk. Samkynhneigt fólk er að borga sína skatta eins og aðrir og eiga því að fá 100% sömu réttindi og við hin. Ef þeir hafa bara 90% réttindi þá eiga þeir að fá skattaafslátt sem nemur þeirri prósentu. Mér fannst þetta hinn mikli sannleikur og fyrir vikið fær Eggert enn fleiri prik frá mér... á þónokkuð mörg fyrir karlinn enda gaman að honum.

Þessi helgi var sannkölluð inniletihelgi. Tók tvær videóspólur; Hostage með Bruce Willis (mjög góð spennumynd) og War of the Worlds með Tom Cruise (líka mjög góð - líktist svolítið independence day).

Litla stelpan mín er að verða stór stelpa og greinilega komin með kærasta þriggja ára gömul. Þetta samtal átti sér stað við matarborðið á föstudaginn:
Ég: "Áttu kærasta?"
Linda Björk: "Já"
Ég: "Nú.. hvað heitir hann?"
Linda Björk: "Hann heitir Valur Yngvi"
Ég: "Jááá... ertu búin að kyssa hann?"
Linda Björk "Já.. heima hjá honum uppí rúmi"
....eins og ekkert sé sjálfsagðara..... og það var mikið hlegið að þessu.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

 

Ælupest

Frú Ælupest bankaði upp hjá okkur í gærkvöldi. Litla snúllan ældi í alla nótt og það var lítið sofið. Svo hún fengi eitthvað í kroppinn greyið þá gaf ég henni eplasafa í glas. Eitthvað hef ég verið rugluð í nótt þegar hún bað um eplasafa að ég setti óvart Gmjólk í glasið hennar og án þess að fatta það þá bendir hún mér á að hún vilji ekki mjólk, ég segi henni að þetta sé ekki mjólk en hún var nú alveg viss um það.... þá tók ég eftir því að ég hafði ruglast á Gmjólkinni og Eplasafanum - núna er ég með hálfgerðan svefngalsa í vinnunni og býst fastlega við því að detta í ælupest um helgina - þetta er víst bráðsmitandi andskoti.
Talandi um ælu... Jón Sigurðsson var að senda frá sér sinn annan disk við mikinn fögnuð frá mér, núna sést hann bera fyrir í sjónvarpi vælandi ástarsöngva og pirrandi mig, auk þess sem myndin á disknum hans minnir mig æ meir á Drakúla... án gríns... kíkið á umslagið (sjáið það vafalaust í auglýsingum) - þetta er Drakúla !!

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

 

Gjugg í borg

Atburðir helgarinnar í "stuttu" máli:
Föstudagur - Linda Björk kysst og knúsuð áður en farið var í Herjólf. Alltaf erfitt að kveðja hana því mér finnst ég alltaf hálf manneskja án hennar. Maður hefur samt sem áður gott af því að hugsa bara um sjálfan sig annað slagið, það er alveg á hreinu. Eftir notalega Herjólfsferð við lestur góðrar bókar "Heppin" þá var brunað út á hótel og innritað sig. Gistum á Hótel Nordica og það er vafalaust flottasta hótel sem ég hef farið á (fyrir utan hótelin sem ég skoðaði í Las Vegas fyrr á árinu). Þarna er allt nýtt og smekklegt, herbergin voru æði og útsýnið úr okkar herbergi ekki af verri gerðinni. Eftir smá næringu var brunað í bíó, nánar tiltekið Sambíóin Álfabakka. Kíkt á frumsýningu á Elizabethtown með Orlando Bloom og Kirsten Dunst. Keypt nachos og kók og myndin var fínasta afþreying.
Laugardagur - vaknað og farið í morgunmat. Rifist um hvernig ætti að eyða deginum og voru nokkrir valkostir í boði. Brynjar vildi fara í Bláa Lónið, sund eða Laugar í Spa.... allir þessir valkostir hentuðu mér frekar illa því þar þyrfti ég að klæðast sundfötum og mér finnst það ekki spennandi. Ég stakk upp á að labba niður Laugaveginn og detta inn á kaffihús, fara í keilu eða á skauta. Lokaniðurstaðan var sú að það var brunað í Bláa Lónið því um þarnæstu helgi fengi ég að ráða ferðinni (erum að fara aftur til Reykjó þá og þá má ég gista í Smáralind ef ég vil). Ég veit ekki alveg hvernig mér fannst þetta Bláa Lón. Í fyrsta lagi þurfti ég að vera í sundbol.... í öðru lagi fannst mér óhuggulegt að sjá ekki botninn.. í þriðja lagi sá ég ekkert í kringum mig fyrir reyk eða þoku eða hvað þetta er og svo fannst mér hræðilega óhuggulegt að stundum var kalt og stundum heitt... beið bara eftir því að ég brenndist og Brynjar spurði mig hvort ég héldi að það væru krókódílar í vatninu ég var svo vör um mig...en... ég hafði nú samt lúmskt gaman að þessu þegar ég var komin uppúr og fínt að hafa prófað þetta - ég er samt ekki spennt að fara aftur þarna.
Eftir þetta ævintýri var bara farið inná Hótel og sturtað sig, klætt sig í fínu fötin og farið á "happy hour" niður á bar... þar sat næstum við hliðina á okkur enginn annar en Mr. Tarantino og ég hafði miklar áhyggjur af að hann skyldi muna eftir stúlkunni í krumpaða jakkanum (mér).... úff hvað ég var í krumpuðum jakka ... og það á Nordica Hótel. Leiðin lá svo næst í þrítugsafmæli til Jónasar Loga og kom afmælisbarnið og sótti okkur og við fórum saman á Madonnu að borða áður en afmælið byrjaði. Þar borðuðum við öll saman; ég, Brynjar, Böddi, Steindór, Jónas, Ingvar, Lauga, Jónas Logi og Renzo. Ég fékk mér það sama og venjulega; lasagne með gráðosti (nr 18 á matseðlinum) og það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn eða fyrri skipti kannski frekar ... var bara enn betra í þetta skiptið og mæli ég eindregið með þessum rétti á þessum kósý veitingastað á Rauðarárstígnum.
Afmælið hjá Jónasi var æðislegt. Haldið á Rauða Ljóninu (samt engir KRingar sko) og þar hitti maður alla Siglfirðingana vinina og það var mikið knúsað og kysst... Gummó var með æðislega ræðu, jaðraði við að vera væmin en slapp samt - mjög persónuleg og ef ég hefði verið Jónas hefði þetta endað í vasaklútum. Flottur hann Gummó, náði samt ekkert að spjalla almennilega við kauða - ég stoppaði svo stutt en ég á það inni næst hjá honum.
Sunnudagur: Vaknað snemma og morgunmaturinn sendur upp á herbergi -bara notó. Þvínæst var pakkað niður og herberginu var skilað af sér. Í Smáralindina var haldið og þá var mín ánægð. Verslaði smá smotterí m.a. jóla- og afmælisgjöf handa snúllunni litlu. Kíkt á kaffihúsið hjá Jóa Fel og þar fékk ég mér fjallaloku (eins og vanalega) og kaffi.. mæli sérstaklega með fjallalokunni.
Ein heimsókn varð fyrir valinu í þessari ferð. Kíktum á Bjarka og Selmu í nýju íbúðina þeirra og þau lofuðu að koma fljótlega til Eyja -sjáum hvernig það fer. Þvínæst hittum við Hjördísi sys á American Style og svo var það bara Herjólfur til Eyja. Skemmti mér konunglega í Herjólfi yfir Eddunni og Silvíu Nótt, það var mikið hlegið í videósalnum á meðan Brynjar lá fyrir dauða sínum við hliðina á klósettinu og sá fyrir sér svipmyndir úr lífi sínu - sá var sjóveikur.
Sem sagt frábær helgi liðin en best af öllu var að koma aftur heim og knúsa litlu rúsínuna.

föstudagur, nóvember 11, 2005

 

Edduverðlaunin


Mín var ekki í vandræðum með að kjósa sjónvarpsmann/konu ársins. Silvía Nótt fékk atkvæði mitt - engin spurning.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

 

Dekurhelgi

Nú á að dekra við sig. Búið að panta herbergi á Nordica Hótel um helgina og þar ætlum við skötuhjú að vera. Get ekki sagt annað en að ég sé orðin spennt fyrir því. Svo er þrítugsafmæli hjá Jónasi, dúllerí, bíó og pínku búðir.

Fór annars í frænkuklúbb í gær og ég er ennþá södd... úfff... þvílíkar kræsingar hjá henni Ásu minni. Kolla var að koma í fyrsta skiptið í frænkó enda nýflutt á eyjuna og henni leist ekkert á þetta; "er fermingarveisla hjá þér Ása ?" hehehehehehe - nokkuð gott. Gaman að hittast svona og halda sambandi. Gaman líka að sjá allar þessar Halloween skreytingar hjá henni Ásu... ekki er það eitthvað sem maður er vanur og skrýtið að sjá beinagrindur hangandi um veggi og draugakerti á borðum - flott.

Horfði á hræðilega mynd í gær og ég svaf illa í nótt fyrir henni (bjóst nú svo sem við því enda er það ekki óalgengt að svona myndir sitji lengi í mér), "The Amityville Horror".... díses hvað hún var hrikaleg og ógeðsleg en bara góð sko.

Svo er bara að renna í kaupstað á morgun og hafa það notalegt.

mánudagur, nóvember 07, 2005

 

Mál borgarinnar

Ég er eiginlega bara fúl yfir því að Vilhjálmur sigraði Gísla Martein. Er ekki að segja að Gísli Marteinn hefði eitthvað verið miklu betri kostur en hefði samt viljað sjá hann sigra þetta og athuga hvort það hefði ekki góð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn að fá ungt, kraftmikið og nýtt blóð í forystu. Líst ekkert á þessi borgarstjórnarmál núna, held þetta verði bara dull og ekki er oddviti Samfylkingarinnar til að laga þetta... einn hrokafyllsti og leiðinlegasti maður sem fyrirfinnst segist ætla að blanda sér í borgarstjórastjólinn.... Stefán Jón - oj.
Sjáum hvað setur.

föstudagur, nóvember 04, 2005

 

Voru álfar að verki...

Hver hefur ekki lent í því að vera að leita af einhverjum ákveðnum hlut og þá meina ég dauðaleit sko.... svo dúkkar bara hluturinn upp daginn eftir og þá þarf maður ekki lengur að nota hann.... Lenti í þessu á Þjóðhátíðinni... var alla helgina að leita eftir blokkflautunni minni, ætlaði sko aldeilis að vera fyndin og taka hana með mér niður í dal en aldrei fannst flautan góða, nema jú birtist ekki bara blokkflautan á þriðjudeginum eftir þjóðhátíð - ég tók þetta sem skýr skilaboð að blokkflautan átti aldrei að fara inn í dal.
....sagt er að álfarnir fái stundum hlutina að láni - á maður ekki bara að trúa því ?... það er nefnilega ótrúlegt hvað hluturinn birtist alltaf aftur beint fyrir framan nefið á manni.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

 

Brók, pulsa og syk !

Það er orðið slæmt þegar eitt versta orðið sem ég veit um er farið að minna annað fólk á mig... jedúdda....Lauga hugsaði allavega til mín í dag þegar hún sá orðið "brók" á netspjalli......hrollur.... orðið "brók" er eitt það ljótasta orð sem ég veit um og hananú. Þetta orð er mikið notað af hinum helmingnum mínum og reyndar flestum siglfirðingum sem ég þekki.
Orðið "brók" kom ekki fyrir í minni uppvaxtarorðabók... mér var kennt að segja "nærbuxur" eða "naríur". Mér finnst það miklu fallegri orð og held mig við þau. Það er eitthvað ljótt við "brók"... hvernig það er sagt og hvernig það lítur út á blaði. Ég hef ansi oft "leiðrétt" hinn helminginn minn með setningu á borð við þessa "....þetta heitir nærbuxur" og ég fæ í magann þegar dóttirin hermir eftir pabba sínum og segist ætla í brókina.... ojjjjjj ...... "ÞETTA ERU NÆRBUXUR !!!!"

....."viltu pulsu ?" annar hrollur.... þetta heitir pylsa ekki pulsa..... hinn helmingurinn kenndi mér að þetta héti pylsa og honum tókst það svona flott að ég segi aldrei pulsa aftur.... og mig hryllir við þegar fólk segist ætla að fá sér pulsu..... og pulsubrauð.... - eina pylsu takk !

..og fyrst ég er komin í stuð hver kannast ekki við "má bjóða þér brjóstsyk?" aaarrrgghhhh -þetta heitir brjóstsykur og þú býður t.d ekki öðrum syk í kaffið. Hér er brjóstsykur, um brjóstsykur, frá brjóstsykri til brjóstsykurs.

Jæja best að kveikja á ristabrauðsvélinni, loka dyrinni og horfa bara útum gluggarúðuna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<