þriðjudagur, nóvember 15, 2005

 

Gjugg í borg

Atburðir helgarinnar í "stuttu" máli:
Föstudagur - Linda Björk kysst og knúsuð áður en farið var í Herjólf. Alltaf erfitt að kveðja hana því mér finnst ég alltaf hálf manneskja án hennar. Maður hefur samt sem áður gott af því að hugsa bara um sjálfan sig annað slagið, það er alveg á hreinu. Eftir notalega Herjólfsferð við lestur góðrar bókar "Heppin" þá var brunað út á hótel og innritað sig. Gistum á Hótel Nordica og það er vafalaust flottasta hótel sem ég hef farið á (fyrir utan hótelin sem ég skoðaði í Las Vegas fyrr á árinu). Þarna er allt nýtt og smekklegt, herbergin voru æði og útsýnið úr okkar herbergi ekki af verri gerðinni. Eftir smá næringu var brunað í bíó, nánar tiltekið Sambíóin Álfabakka. Kíkt á frumsýningu á Elizabethtown með Orlando Bloom og Kirsten Dunst. Keypt nachos og kók og myndin var fínasta afþreying.
Laugardagur - vaknað og farið í morgunmat. Rifist um hvernig ætti að eyða deginum og voru nokkrir valkostir í boði. Brynjar vildi fara í Bláa Lónið, sund eða Laugar í Spa.... allir þessir valkostir hentuðu mér frekar illa því þar þyrfti ég að klæðast sundfötum og mér finnst það ekki spennandi. Ég stakk upp á að labba niður Laugaveginn og detta inn á kaffihús, fara í keilu eða á skauta. Lokaniðurstaðan var sú að það var brunað í Bláa Lónið því um þarnæstu helgi fengi ég að ráða ferðinni (erum að fara aftur til Reykjó þá og þá má ég gista í Smáralind ef ég vil). Ég veit ekki alveg hvernig mér fannst þetta Bláa Lón. Í fyrsta lagi þurfti ég að vera í sundbol.... í öðru lagi fannst mér óhuggulegt að sjá ekki botninn.. í þriðja lagi sá ég ekkert í kringum mig fyrir reyk eða þoku eða hvað þetta er og svo fannst mér hræðilega óhuggulegt að stundum var kalt og stundum heitt... beið bara eftir því að ég brenndist og Brynjar spurði mig hvort ég héldi að það væru krókódílar í vatninu ég var svo vör um mig...en... ég hafði nú samt lúmskt gaman að þessu þegar ég var komin uppúr og fínt að hafa prófað þetta - ég er samt ekki spennt að fara aftur þarna.
Eftir þetta ævintýri var bara farið inná Hótel og sturtað sig, klætt sig í fínu fötin og farið á "happy hour" niður á bar... þar sat næstum við hliðina á okkur enginn annar en Mr. Tarantino og ég hafði miklar áhyggjur af að hann skyldi muna eftir stúlkunni í krumpaða jakkanum (mér).... úff hvað ég var í krumpuðum jakka ... og það á Nordica Hótel. Leiðin lá svo næst í þrítugsafmæli til Jónasar Loga og kom afmælisbarnið og sótti okkur og við fórum saman á Madonnu að borða áður en afmælið byrjaði. Þar borðuðum við öll saman; ég, Brynjar, Böddi, Steindór, Jónas, Ingvar, Lauga, Jónas Logi og Renzo. Ég fékk mér það sama og venjulega; lasagne með gráðosti (nr 18 á matseðlinum) og það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn eða fyrri skipti kannski frekar ... var bara enn betra í þetta skiptið og mæli ég eindregið með þessum rétti á þessum kósý veitingastað á Rauðarárstígnum.
Afmælið hjá Jónasi var æðislegt. Haldið á Rauða Ljóninu (samt engir KRingar sko) og þar hitti maður alla Siglfirðingana vinina og það var mikið knúsað og kysst... Gummó var með æðislega ræðu, jaðraði við að vera væmin en slapp samt - mjög persónuleg og ef ég hefði verið Jónas hefði þetta endað í vasaklútum. Flottur hann Gummó, náði samt ekkert að spjalla almennilega við kauða - ég stoppaði svo stutt en ég á það inni næst hjá honum.
Sunnudagur: Vaknað snemma og morgunmaturinn sendur upp á herbergi -bara notó. Þvínæst var pakkað niður og herberginu var skilað af sér. Í Smáralindina var haldið og þá var mín ánægð. Verslaði smá smotterí m.a. jóla- og afmælisgjöf handa snúllunni litlu. Kíkt á kaffihúsið hjá Jóa Fel og þar fékk ég mér fjallaloku (eins og vanalega) og kaffi.. mæli sérstaklega með fjallalokunni.
Ein heimsókn varð fyrir valinu í þessari ferð. Kíktum á Bjarka og Selmu í nýju íbúðina þeirra og þau lofuðu að koma fljótlega til Eyja -sjáum hvernig það fer. Þvínæst hittum við Hjördísi sys á American Style og svo var það bara Herjólfur til Eyja. Skemmti mér konunglega í Herjólfi yfir Eddunni og Silvíu Nótt, það var mikið hlegið í videósalnum á meðan Brynjar lá fyrir dauða sínum við hliðina á klósettinu og sá fyrir sér svipmyndir úr lífi sínu - sá var sjóveikur.
Sem sagt frábær helgi liðin en best af öllu var að koma aftur heim og knúsa litlu rúsínuna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<