mánudagur, febrúar 19, 2007

 
"Ó, mamma, gef mér rós í hárið á mér,
því tveir litlir strákar eru skotnir í mér.
Annar er blindur og hinn ekkert sér.
Ó, mamma, gef mér rós í hárið á mér.

Þegiðu stelpa, þú færð enga rós,
farðu heldur með henni Gunnu út í fjós.
Þar eru kálfar og þar eru kýr,
þar eru fötur til að mjólka í.
"

Þetta lag er dóttir mín alltaf að syngja þessa dagana. Get ekki að því gert en textinn fer alveg óskaplega í taugarnar á mér. Mér finnst hann virkilega ljótur. Þarna er ung stelpa í aðahlutverki. Hún syngur um að tveir litlir strákar séu skotnir í sér og það þarf endilega að koma fram að annar sé blindur og hinn sjái ekki (er hann ekki þá blindur líka ?). Gott mál að peyjarnir séu skotnir í henni en afhverju geta þeir þá ekki séð hvað hún er falleg... eða er hún kannski ekki falleg ??? Plús... tilhvers þarf hún rós í hárið þegar strákarnir sjá hana hvort eð er ekki. Hitt atriðið í textanum er þegar mamma hennar byrstir sig við hana og segir henni að þegja. Þetta orð nota ég aldrei, mér finnst það mjög ljótt og dónalegt og jaðra við að slá fólk utanundir. Sumum finnst þetta orð saklaust en ég hef annan skilning á því. Svo endar mamma hennar á að skipa dóttur sinni út í fjós að mjólka kýr og enga rós fær hún... þetta lag endar virkilega illa. Hvurslags eiginlega vitleysa er þetta?

sunnudagur, febrúar 18, 2007

 
Í morgun bankaði pabbi uppá hjá mér og afhenti mér blómvönd og óskaði mér til hamingju með daginn. Hann er svo mikil dúlla og ég vissi ekki einu sinni að það væri konudagurinn. Frábær pabbi.

laugardagur, febrúar 17, 2007

 
Sorrý ! Gat verið að þetta lag ynni Euro... algjörlega fyrirsjáanlegt og eins og þetta hafi verið löngu ákveðið. Að vísu var ég með nettar áhyggjur yfir að Friðrik Ómar eða Jónsi ynnu þetta en jæja... Eiki vann þetta og hann hefur sko ekkert breyst síðan 1986. Hef ekkert á móti honum en lagið finnst mér bara ekkert gott. Mér finnst aldrei gott að velja svipað lag og vann árið áður. Í keppninni árið eftir að Ruslana vann þá var annaðhvert lag með ruslatunnutrommum og núna grunar mig að annaðhvort lag verði rokk. Mér fannst annars "Þú tryllir mig", lagið með Heiðu og "Húsin hafa augu" (þeim sárvantaði að vísu kúrekahattana þar) mun skárri en lögin í fyrsta og öðru sætinu en jæja það verður að hafa þetta. Held ég geti ekki haft neinar áhyggjur af að vera að vinna í kjördeild á Eurovisionkvöldinu í maí, Eiríkur fær pottþétt 12 stig frá Norge og líklega svo ekki mikið fleiri en æ ég nenni ekki að hlusta á þetta lag aftur.
Rúv á svo hrós skilið fyrir Eurovisionið, þetta var bara mjög skemmtilegt.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

 
Mín búin að vera lasin síðustu daga... slöpp með hausverk og kvef. Þrátt fyrir það þurfti ég til Reykjavíkur í skottúr til læknis og það er ekkert sérstakt að standa í svona ferðalögum í veikindum... bót í máli að ég gat EKKI verslað af mér rassgatið sökum einbeitingarleysis og slappleika. Komst þó í eina heimsókn og í bíó fór ég með Hjördísi einkabílstjóra og hótelhaldara og Siggu vinkonu. Við sáum Blood Diamond sem er algjör snilld og Leonardo diCaprio...jiminn góður..... flottur var hann. Sigga virtist þó lifa sig of mikið inní myndina og brá mér mikið þegar henni brá því hún kipptist svo við í hvert skipti að byssukúlu var skotið. Gaman að því en mæli með Blood Diamond.

laugardagur, febrúar 10, 2007

 
Jæja... hvert er litla samfélagið okkar að fara...eða kannski hvert er það farið ? Öll þessi hræðilegu mál sem eru að koma upp á yfirborðið núna í sambandi við barnamisnotkun, Byrgið, Kompás og jú frábært að þetta er að koma upp en viðbjóður að þetta skuli hafa viðgengist og enginn virðist vera ábyrgur. Ég sjálf hef ekki getað horft á Kastljós síðustu daga.. ég hef ekki taugar í svona og get ekki horft upp á stóra og sterka fullorðna karlmenn brotna eins og hríslur segjandi frá sinni hræðilegu lífsreynslu. Fékk tölvupóst um daginn með myndum af fullorðnum karlmönnum og þeirra prívathluta sem þeir sýndu "13 ára stúlku" á netinu. Mér varð óglatt þegar ég skoðaði þetta en fannst þetta um leið frábær leið til að klekkja á þeim. Vonandi fara þessir menn að fá dóma sem eiga við brotin.... í mínum huga eru þessi brot á börnum oft á tíðum verri en morð.

Kellan þarf í borgina á morgun, læknisheimsókn á mánudagsmorgun og svo strax aftur til Eyja með fyrri ferð Herjólfs. Ég er ekkert alveg að fíla þessi ferðalög en læt það eftir mér að fara í bíó á morgun svona til að gleðja bíóhjartað mitt.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

 
Skellti mér í höfuðborgina í örskot til að heimsækja lækni. Hafði nú ekki mínútu aflögu til að kíkja í búðir. Fór beint úr Herjólfi í Smárabíó og sá Apocalypto. Þvílíka snilldin er þessi mynd. Gisti hjá Hjördísi sys sem er líka einkabílstjórinn minn. Skellti mér svo aftur til Eyja morguninn eftir og mikið verð ég alltaf fegin að komast aftur heim, þó ég sé að heiman í 10 daga eða í 1 dag. Það er eitthvað sem togar fast í mann, eitthvað mjög svo ólýsanlegt.

Svo er ég að springa úr monti af dóttur minni sem fékk hæstu einkunn á leikskólanum. Rúllar upp öllum skólaverkefnum, mjög félagslega sterk, klár, dugleg og bara frábær. Hún talar þó stundum meira en góðu hófi gegnir og ekki þá bara á leikskólanum heldur líka heima hjá sér, það er ansi oft sem ég er að tala við tvo í einu, hlusta á sjónvarpið með einu eyranu og hlusta á hana með hinu eyranu... um daginn virtist hún sjálf eitthvað orðin þreytt á sjálfri sér og sagðist ætla að hætta að tala því henni væri illt í munninum af tali. Þessa málgleði hefur hún ekki frá móður sinni.

Vildi svo benda ykkur á að Jörðin (The Earth) er komin aftur á dagskrá á Rúv á mánudagskvöldum. Einir flottustu þættir sem hafa verið gerðir.

mánudagur, febrúar 05, 2007

 
Ekkert smá sorglegt. Stöð 2 eru hættir með Ísland í bítið og þetta sem voru einir af mínum uppáhaldsþáttum, þegar ég gat horft á þá. Mér finnst þetta mikil afturför hjá þeim. Ég kveikti alltaf á Íslandi í bítið þegar ég var að borða morgunmatinn og þetta var svona fastur punktur í tilverunni hjá mér. Í morgun hinsvegar snerist ég í hringi og vissi ekkert hvernig ég ætti að vera.

föstudagur, febrúar 02, 2007

 
Eftir hvaða reglum fer dómskerfið á Íslandi. Þetta er mér á allan hátt óskiljanlegt og eins viðbjóðslegt og hugsast getur. Kíkið hingað. Skammist ykkar þið þarna lögmenn fimm...skamm skamm !!!

 
Ég viðurkenni það fúslega, ég hélt með Pólverjunum í gær. Ég er bara alls ekki búin að jafna mig á Danaleiknum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<