þriðjudagur, janúar 31, 2006

 

LOSTið og Kastið

Ég held ég hafi aldrei verið svona spennt að horfa á sjónvarpsþátt áður..... búin að koma mér vel fyrir uppí rúmi þegar LOST byrjaði og vá hvað hann var góður. Ég var límd yfir þessu og er viss um að ef síminn hefði hringt hefði ég ekki svarað í hann. Svo auðvitað þurfti þátturinn að enda þannig að núna bíður maður spenntur eftir mánudögum - sem er bara nokkuð gott.
Fyrsti þáttur af Prison Break í kvöld og ég að fara í saumó - stilli bara videóið á upptöku og horfi seinna, þessir þættir eru víst rosalegir.
En jæja... mætti halda að ég væri gift sjónvarpinu en svo er nú ekki.
Dóttirin tók eitt kastið í gær. Ég get svarið það ég sá bara Emily Rose í henni... þetta var allavega ekki litla saklausa stúlkan mín sem í gær reif kjaft við mig og lét mig elta sig um allt, neitaði að sitja á óþekktartröppunni, hermdi eftir skammaryrðum mínum og ég get svarið það ég átti bara bágt með mig þarna.... lítil 4ra ára skvetta rífandi kjaft - stundum þarf ég að fara afsíðis til að brosa að þessu, ekki má hún sjá til mín að þetta sé fyndið hvernig hún lætur. Ég endaði á að taka tölvuna hennar og setja hana uppí skáp - stelpan er í tölvustraffi næstu daga. Einhver sem kann gott ráð til að hemja svona skapstóra dömu !

mánudagur, janúar 30, 2006

 

Á mánudegi

Helgin var eins og flís við rass. Rólegheit og notalegheit, akkúrat eins og ég vil hafa það. Systur mínar komu í pizzu og Idolpartý á föstudaginn og skemmtum við okkur frábærlega með fullt af snakki og sælgæti í skál, gerist ekki betra.
Sá stórkostlega DVD mynd á laugardagskvöldið, "The Cinderella Man". Mæli eindregið með að þið náið ykkur í hana sem fyrst. Sannsöguleg saga, leikurinn frábær og öll umgjörð í einu orði sagt stórkostleg.
Að lokum smá hugleiðing á mánudegi....hvernig væri ef helgarfríið væri þrír dagar.. ó hvað ég væri til í það... þá væri mánudagurinn sunnudagur og þriðjudagur mánudagur... held að það myndi virka vel - ég er nefnilega alltaf svo löt á mánudögum.


Vildi svo minna ykkur á Ríkissjónvarpið í kvöld klukkan 22:25, LOST takk fyrir.

laugardagur, janúar 28, 2006

 

hmmm..

Ég er með æði fyrir hrísbitum (þessir í gulu kössunum) og stórum lakkrísklöttum (broskörlum).....get borðað yfir mig af þessu en hvað um það.
Þetta Eurovision dæmi; til hvers er verið að semja lög í þetta þegar þetta eru allt eins lög? Ætla Íslendingar ekki að læra að það þýðir ekkert að senda svona venjuleg lög þarna út, helst þarf að senda eitthvað fáránlegt lag svo það vekji nú í fyrst lagi einhverja athygli. Ég er ekki búin að heyra eitt gott lag þarna sem gæti vakið athygli í keppninni sjálfri - helst vildi ég bara senda eldgamlan, krúttlegan harmóníkuleikara sem myndi sitja á stól á sviðinu, spila á munnhörpu í leiðinni og flauta einhvern lagstúf - hann fengi allavega athygli og það er það sem er aðalmálið. Það verður að vera húmor í þessu.
Idol í gær. Líst frábærlega á þennan hóp. Það er akkúrat enginn þarna sem pirrar mig, hefur alltaf í þessum Idol keppnum verið einhver einn sem ég hef fengið grænar bólur yfir en ekki núna, finnst allir æði. Var samt ekki alveg sátt við úrslitin í gær, fannst Elfa standa sig verst en svona er þetta bara.
Tjáið ykkur !

föstudagur, janúar 27, 2006

 

Á föstudegi

Það er ekki hægt að segja að ég sé virkur bloggari þessa dagana enda frá litlu að segja þannig lagað. Búið að vera brjálað að gera í vinnunni og vikan hefur flogið áfram - mér finnst bara alltaf vera föstudagur sem er gott því það er minn uppáhaldsdagur. Fór í saumó í gær til Ásu Ingibergs og það var ferlega gaman, alltaf gott að rífa sig uppúr sófanum og sjónvarpinu á kvöldin og hitta fólk (tók bara upp Nip Tuck). Í kvöld ætla ég svo að bjóða "litlu" systrum mínum í mat, pizzu. Fæ samt sem áður alltaf kvíðakast þegar ég ætla að elda pizzu því stundum virkar #"%"&/!& ofninn ekki og pizzan er stundum rúman klukkutíma í ofninum og samt ekki nóg bökuð og mín orðin ansi pirruð. Mig langar í nýjan ofn og nýja eldhúsinnréttingu fyrir afganginn.. en það er annað mál.
Íslensk tunga er að hverfa og enskan að taka við. Þetta heyrir maður í fréttunum og það bara kemur mér alls ekki á óvart. Sumar íslenskar bloggsíður sem maður er að lesa eru nánast á ensku og ég er ekki alveg að fatta afhverju fólk notar enskuna svona mikið. Mér finnst það ekki töff ef það á að vera töff en ég er kannski bara orðin gömul og hallærisleg að skrifa á íslensku "whatever".

sunnudagur, janúar 22, 2006

 

Hellahrollur og hollusta

Verð að mæla með myndinni sem ég sá í dag.. já í dag því ég þorði ekki að horfa á hana í gærkvöldi og það er kannski eins gott að ég horfði á hana í dagsbirtu því hún var svakaleg. Þetta er hrollvekja af bestu gerð sem gerist að nær öllu leyti í helli og það eitt var nóg fyrir mig því ég set ekki litlutá inn í neinn helli aðallega þó vegna köngulóa og svoleiðis. Myndin heitir The Descent og er ferlega góð í alla staði.

Núna er bara beðið eftir lokaþætti 4400 og fyrsta þætti Rome, endursýningu á Threshold, 24 eftir viku og LOST eftir 8 daga - allt að gerast hjá sjónvarpssjúklingnum mér. Couch Potato

Svo ég tali svo um heilsusamlegri Body Builderhluti þá er ég alvarlega að hugsa um að kaupa mér safapressu.... á einhver svoleiðis og er þetta sniðugt ? Keypti mér nefnilega bókina "Endalaus orka" sem hefur að geyma allskyns uppskriftir af hollustudrykkjum úr ávöxtum og grænmeti og þar sem ég er svo ofboðslega dugleg að nota blandarann minn í hádeginu eftir ræktina með þessa uppskrift: skyr.is, ein weetabix, þrír klakar, þrjú frosin jarðarber og undanrenna og til hátíðarbrigða einn bátur melóna.....þá væri gott að geta fengið sér stöku sinnum hressandi ávaxtadrykk seinnipartinn í staðinn fyrir kaffi og kex og/eða á morgnana með ab mjólkinni. Já ég er svo holl... fyrir utan nammiveisluna á kvöldin....abbabbabbbb tölum ekki um það .... en þetta er auðvitað góð byrjun og einhversstaðar þarf maður að byrja.
Jæja 4400 að byrja og best að fá sér piparbrjóstsykur.








laugardagur, janúar 21, 2006

 

Niðurstaða

LOST byrjar mánudaginn 30. janúar - get ekki beðið !!! Spaz






miðvikudagur, janúar 18, 2006

 

Ein spurning

Hvenær byrjar LOST ???

mánudagur, janúar 16, 2006

 

Afmælisbarn dagsins !




Litla englastelpan mín er 4ra ára gömul í dag.Læt fylgja með nokkur gullkorn frá henni í tilefni dagsins:
"Eigi leið þú oss í FRYSTI"
"Þegar fiskar prumpa þá kemur fiskifýla"
"Viltu kalla á mig þegar baðið er orðið mjúkt"
"Sjáðu mamma, myndin er bráðnuð"! (stundum á dvd diskurinn til að frjósa... eitthvað var hún að rugla þessu saman)
"Mamma við erum ekki dáin, við erum bara vaknaðar" (sagt í kirkjugarðinum)
"Stuttermabuxur"
"Sestu hafmeyja, sestu, eins og skot !" (var að tala við hafmeyjublöðruna sína)
"Ég vil svona Barbie-sósu" og stuttu seinna "mmm... góð þessi prinsessusósa"(þetta á víst að heita BBQ sósa)
Í framtíðinni ætlar þessi stelpa sér að verða "læknamaður" en samt vinna í bakaríinu hjá Jóa Fel.

Alveg frábær !
Afmælisveislan var haldin á laugardaginn og það eru komnar inn myndir frá veislunni.... hér neðst til vinstri undir "myndir".

fimmtudagur, janúar 12, 2006

 

Dagbók barnsins

Ég hef frá því að dóttir mín var tveggja mánaða gömul skrifað í vefdagbókina hennar á heimasíðu hennar á barnalandinu. Í gær tók ég mig til og prentaði út alla vefdagbókina frá mars 2002 til dagsins í dag og þetta er nú meiri fjársjóðurinn sem ég á. Allar helstu upplýsingar um barnið mitt frá því það var að taka tennur, frá því það sat í fyrsta sinn, fyrstu skrefin, frá veikindum, ferðalögum, fyrsta leikskóladaginn, jólum, afmælum, vinum fyrstu orðunum, gullkorn, sniðugum atvikum og hinum ýmsustu þroskamerkjum. Þetta eru um 70 blaðsíður af fyrstu árum dóttur minnar. Ég ætla að halda áfram að skrifa um hana eins og áður frá hennar sjónarhóli. Það verður æðislegt að gefa henni þetta innbundið í bók/bækur þegar hún verður orðin fullorðin.
Vildi bara benda ykkur á sem eru með síður fyrir börnin ykkar að endilega halda áfram að skrifa .... þetta er svo dýrmætt og þessi litlu atriði sem eru samt svo stór eiga það til að gleymast.
Ég er í skýjunum yfir að ég eigi þessar minningar á vísum stað.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

 

Ekki alveg sammála sko...

Mikið er fréttaflutningurinn af tónleikum náttúruverndarsinna að fara í taugarnar á mér.... það skal sko enginn segja mér að allir sem skelltu sér á tónleikana hafi verið náttúruverndarsinnar og hafi farið á tónleikana til þess eins að styðja við náttúruvernd.
Held að meginþorrinn hafi ekki hugsað um Kárahnjúka né önnur atvinnuskapandi mannvirki heldur hafi bara ætlað að sjá og heyra í þessum aragrúa hljómsveita sem þarna var samankominn. Ég segi það bara hér... ég er ekkert hrifin af þessum náttúruverndarsinnum og það tók steininn úr að sjá krakkahópinn sem réðst inn í iðnaðarráðuneytið í gær til að hrópa stuðningsorð gegn virkjanastefnu - eina sem mér datt í hug var "heilaþvottur foreldranna". Væri samt alveg til í að fá þessa krakka lánaða til að mótmæla einhverju öðru eins og t.d. launum leikskólakennara fyrir það fyrsta.

Íslendingur númer 300.000 er fæddur. Hvernig er hægt að mæla það númer hvað hann er eða er ég svona ofboðslega glær. Það hljóta einhverjir hafa dáið á meðan og það ekki komist til skila á hagstofuna eða... púffff ég fatta ekki svona útreikninga og hef alltaf verið ömurleg í stærðfræði og kannski mjög gott að ég sé ekki að vinna á Hagstofunni við mannfjöldaútreikninga það væri áreiðanlega einhver skrautleg tala þá komin upp á borðið.

mánudagur, janúar 09, 2006

 

Hitt og þetta, aðallega þetta....

Jólin búin. Hvað er meira hægt að segja...... jú þau koma aftur og um að gera að fara að hlakka bara til þess. Næsta mál á tilhlökkunarlistanum er fjögurra ára afmælisveislan hennar dóttur minnar um næstu helgi og svo eru það bara páskarnir með öllum sínum notalegu frídögum, þá verður skellt sér norður á Sigló á skíði ekki spurning.
Grár hversdagsleikinn skelltist á andlitið á mér í gær þegar allt jólaskrautið var komið í kassa. Mér fannst svo dimmt og tómlegt yfir öllu að ég var með kerti í öllum hornum og á öllum borðum. Stofan hjá mér var eins og lítil kapella í gær. Æ finnst bara ekkert gaman af þessu jóladóti þegar jólin eru búin þannig að það er eins gott að taka það bara niður.

Nóg til að hlakka til og gera á næstu dögum. Nip-Tuck er að byrja á Stöð 2, Australias Next Top Model á Skjá einum, ræktin, gott mataræði, pepsi max bara um helgar...og stundum á miðvikudögum, hjálpa Brynjari í skólanum... já hann er byrjaður í framhaldsskóla kallinn... (ég má því eiga von á að hann fái unglingaveikina fljótlega) og svo er bara að njóta síðustu vetrarmánaðanna í botn í litlu kapellunni sinni.
Eitt enn..... ég hélt að þessi fuglaflensa væri grafin og gleymd.... en nei... ég er að farast úr áhyggjum yfir þessu - ef þið heyrið ekki í mér í vor þegar farfuglarnir fara að koma þá er ég uppí geymslu með niðursuðudósunum mínum og búin að gleypa lykilinn.....oj hvað ég hata eitthvað svona sjúkdómavesen.

föstudagur, janúar 06, 2006

 

Göng og aftur göng....

Eitthvað finnst mér að þessi blessaða endalausa umræða um göng og rembingur um að það sé hægt að gera göng fyrir minni pening en áætlað er megi fara að missa sig....Eyjamenn eiga að hugsa um nýjan Herjólf sem er hraðskreiðari og færi á milli kannski á tveimur tímum. Það er kannski ekki að marka mig þar sem mér líður alltaf vel í Herjólfi en þetta er allavega mín skoðun og ég held að það sé betra fyrir Eyjarnar. Segi fyrir mitt leyti að ef það væru göng hér á milli þá færi ég mun oftar til Reykjavíkur í verslunarferðir, bíó og ýmislegt sem kæmi strax niður á verslun hér. Ég væri sko alveg vís með að skreppa að morgni laugardags, versla eins og brjálæðingur og koma aftur um kvöldið og það myndi ég áreiðanlega gera einu sinni í mánuði . Hvað um það mér finnst allavega að við ættum að fara að einbeita okkur að einhverju sem er raunhæfur kostur innan fárra ára... ekki 10-20 ára process.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

 

Hafði nú ekki leitt hugann að þessu.....

http://www.sudurland.is/Eyjafrettir/news/1219/

og ég á heima á móti bensínstöðinni.......

þriðjudagur, janúar 03, 2006

 

2006

Þá er komið nýtt ár. Áramótin voru bara mjög fín. Hittum gamla vinahópinn minn á föstudagskvöldið og spiluðum Party og co sem er bara snilldarspil (og ég er nú ekki mikil spilakelling). Frábært að ná að hittast svona öll og það er nú afar sjaldan að það tekst. Spurning að gera þetta að hefð - spilakvöld daginn fyrir gamlárs.
Á gamlárs fórum við svo til mömmu og pabba í kalkún.... úff hvað hann var hrikalega góður. Svo var sest niður fyrir framan sjónvarpið og horft á Stelpurnar sem ég var alveg að missa mig yfir og ekki tók síðra við. Skaupið var frábært í einu orði sagt og langt síðan ég hef hlegið svona mikið yfir Skaupinu. Þegar Skaupinu lauk um kort yfir ellefu þá voru Vestmannaeyingar bara byrjaðir að skjóta upp og ég röfla alltaf yfir þessu á hverju ári...... afhverju er Skaupið ekki látið byrja klukkan ellefu og þá er það búið klukkan tólf og þá er kominn tími til að skjóta upp. Mér finnst bara miklu hátíðlegra að flugeldasýning byrji þegar nýja árið er komið en hvað um það..... kannski óþarfa vangaveltur hjá mér. Eftir sprengjurnar og lætin fórum við svo bara heim og fengum Jónas Loga og Ester hans og Hjördísi sys í smá heimsókn, þau fóru svo á ball og við gömlu fórum að sofa. Allir sáttir.
Nýtt ár er hafið og skv. stjörnuspánni minni þá á það að líta svona út;

Þrettándinn er næstur, hlakka mikið til enda frábær skemmtun, sérstaklega fyrir krakkana. Svo er bara að taka niður jólaskrautið á laugardaginn....jiii hvað verður tómlegt.

Setti inn nokkrar myndir frá jólum og áramótum.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<