miðvikudagur, maí 31, 2006

 
"Drekkjum Valgerði en ekki Íslandi" stóð á einu mótmælaskilti náttúruverndarsinna.... hvað er í gangi spyr ég bara....þarna fóru þeir langt út fyrir klettabrúnina. Ég er ekki hissa á að hún kæri þetta á stundinni og vonandi verður hún bara enn harðari fyrir vikið.

 
Úti er BAULANDI rigning (eins og dóttir mín segir) og þá fæ ég svona hálfgerða léttistilfinningu... án gríns, ég er eins og blómin, það þarf greinilega að vökva mig reglulega. Núna er t.d. búið að vera sól í nokkra daga og þá verð ég eiginlega viðþolslaus, fæ hausverk og þrái rigningu. Ég gæti allavega aldrei búið annarsstaðar en á Íslandi það held ég að sé nokkuð ljóst.
Í sambandi við veðrið annars þá fæ ég alltaf kjánahroll þegar sumarið er að byrja og fyrstu góðviðrisdagarnar fara að koma. Íslendingar tryllast gjörsamlega og það er ansi gaman að fylgjast með því. Það er nefnilega þannig að það er yfirleitt ekki talað um annað en hvað það sé yndislegt veður úti (ég tek nota bene ekki þátt í þeim samræðum því mér er nokk sama þó það sé yndislegt veður úti og hvað þá að ég nenni að spjalla um það). Flestir kvarta yfir því að geta ekki verið úti í yndislega veðrinu og vilja ekki koma inn því það sé svo heitt og æðislegt úti (hey.. það er líka heitt og notalegt inni og engin sól að skína í augun á manni segir innipúkinn). Margir taka þó annan pól í hæðina og kvarta yfir hvað það sé OF heitt og það væri gott að hafa smá gjólu, næsta dag er of mikil gjóla. Sumir kunna alltaf veðurspánna næstu fimm daga fram í tímann og þá fær maður að vita það að það verði sko blíða áfram. Það er alveg merkilegt að fylgjast með Íslendingum á sumrin því um leið og fyrstu sólargeislarnir fara að skína þá gjörsamlega tryllast þeir af æsingi við að koma sér út til þess að geta nýtt hverja einustu sólarsekúndu. Stundum líður mér eins og glæpamanni fyrir það eitt að vilja kannski frekar eyða deginum inni hjá mér en að fara út í góða veðrið, svitna, píra augun til hausverkjar og verða svo dösuð af sólsting. Jú ég er kannski innipúki en plís ekki láta mér líða eins og glæpon fyrir það.
Ég held að Ísland sé besta land í heimi. Hér má eiga von á öllum andskotanum og sama hvernig veðrið er er mér nokk sama.... finnst fjölbreytileikinn bara nauðsynlegur. Sólin er auðvitað velkomin eins og rigningin en ég er ekkert að hlaupa út á náttfötunum um leið og ég vakna bara svo ég missi ekki af fyrstu morgungeislum sólarinnar.
Ég held bara áfram að brosa í kampinn þegar ég hlusta á fólk tala um veðrið.... það er nefnilega svo ofboðslega skemmtilegt umræðuefni eða hvað .... NOT. Ég bið bara um gott veður á Þjóðhátíð og snjó á jólum annars er mér nokkuð sama.

þriðjudagur, maí 30, 2006

 
....kötturinn er týndur..... en ég get svarið að það er ekki mér að kenna.

mánudagur, maí 29, 2006

 
"Ókkup" var nú lítið úr þessari helgi hjá kellingunni. Laugardagurinn fór allur, og þá meina ég frá 8-22:30 í vinnu við kjörstjórn. Þetta var því eins dags helgi og ég mæli ekkert sérstaklega með því en það styttist í næstu helgi sem er stór.
Það er annars búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarið eða mér finnst það... Hjördísi Yo þætti þetta nú ekki merkilegur pappír enda ofvirk stúlka þar á ferð...hehehe.
Um næstu helgi á svo að smala minni yndislegu Reynistaðarfjölskyldu saman upp í Skátastykki og eyða deginum saman með krökkunum, grilla, spjalla, syngja og kveikja varðeld. Núna bið ég því um sól og blíðu á laugardaginn og ég bið ekki oft um svoleiðis....plííííssss.... ég dansa allavega ekki regndansinn í vikunni.
Það eru svo 66 dagar í þjóðhátíð !

föstudagur, maí 26, 2006

 

Kötturinn kom á stéttina hjá mér í gær. Ég hljóp inn fyllti fötu af vatni og hellti yfir hann með morðglampa í augum. Kötturinn flúði eins og loppur toguðu. Ég var sigrihrósandi, þessi köttur kemur aldrei hingað aftur. Um kvölmatarleytið var kötturinn kominn inn í svefnherbergi hjá mér....arg og garg. To be continued......

fimmtudagur, maí 25, 2006

 
Brokeback Mountain. Sá hana í gær og hún er í einu orði sagt stórkostleg. Leikurinn og þá sérstaklega hjá Michelle Williams var æðislegur. Þetta var svona mynd sem ég vonaði að endaði ekki... samt var hún rúmir tveir tímar. Frábær.

miðvikudagur, maí 24, 2006

 
Jæja komin tími á smá blogg. Skellti mér í borgina yfir helgina og var það fínt fyrir utan magapest og slappelsi... ekkert spes að vera veikur í Smáralind - afkastar ekki miklu þannig en samt náði ég að afkasta fullt sko.
Nú, ég fór í bíó á föstudagskvöldið klukkan 23:00 á Da Vinci Code. Fékk Hjördísi sys og Önnu Kristínu með mér og það var sko bara gaman hjá okkur. Myndin var að mínu mati mjög góð. Hún var að fá slæma dóma þannig að ég fór með því hugarfari í bíóið.... mæli með henni og auðvitað með því hugarfari að bókin er auðvitað mikið nákvæmari.
Svo var bara verslað og verslað og farið í útskriftarveislu á laugardagskvöldið. Dýrindis matur og fjör og svo gláptu þeir sem ekki voru að fá sér í glas á Eurovision þar með talið ég. Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið ánægð með úrslitin...mér leið bara illa að horfa á þessi skrímsli þetta er nú eitthvað djók bara. Stigagjöfin var líka djók og fer þetta núna alfarið eftir hvaða lönd eru nágrannar hvers. Held það þurfi að finna annað form á þetta. Annars hélt ég með danska laginu en ekki komst það langt áfram, ég náði ekki einu sinni að gefa því stig því ég kunni ekki að greiða atkvæði.... hvernig átti maður að senda sms.... Tók líka eftir einu sem er umhugsunarvert. Í tíu efstu sætunum voru 7 lög úr undankeppninni.... segir þetta ekki eitthvað?

föstudagur, maí 19, 2006

 
Ef þið haldið að ég sé dýravinur þá hafið þið mikið mikið rangt fyrir ykkur. Dýr eiga að mínu áliti bara að vera í sveitinni ekki í þéttbýli.
Núna stend ég í miklum barningi við kött sem á heima í nágrenninu.... af einhverjum ástæðum pissar þessi /&(%/%#(%= köttur á útidyrahurðina hjá mér og hefur gert það í tvígang... ég veit ekki hvaða köttur þetta er en hef lúmskan grun... hef reyndar séð fleiri en einn kött álpast þarna á stéttinni hjá mér og sendi þeim hiklaust morðauga eða "FARÐU" með hræðilega grimmri röddu og bendingu. Grimmhildur heiti ég.
Þessi endurteknu kattarpiss og ágangur þessara dýra hjá mér eru að gera mig brjálaða. Mér var bent á að hella klór yfir stéttina, ég gerði það...... lyktin fór en ##&%"# kötturinn kom aftur. Í morgun sá ég kattarhland á hurðinni minn og í hádeginu fór ég út á stétt með fjögur hvítlauksrif og makaði stéttina og vá hvítlaukslyktin lagði um allt hverfið. Ég sagði meira að segja upphátt...."jæja hingað kemur ekki tígrisdýr í bráð"....... 10 mínútum seinna sé ég $&$%/"#! köttinn við hurðina.
Hvað á ég að gera ?

 
Verð að tjá mig aðeins um Eurovision. Get nú ekki sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með úrslitin í gær... átti von á þessu. Ég varð hinsvegar fyrir miklum vonbrigðum með að Silvía skyldi ekki láta F-orðið flakka og láta þar með á það reyna hvort hún yrði rekin úr keppninni.... hún var þegar búin að gera allt brjálað og því ekki að klára þetta með stæl.
Ég hef alltaf haft mjög gaman af þessari keppni en mér finnst eftir að þessar Austan-þjóðir fóru að taka þátt að hlutirnir séu ansi breyttir. Þessi lönd eru búin að eyðileggja keppnina, þau kjósa bara hvert annað og það pirrar mig agalega... alveg eins og þessar norðurlandaþjóðir kjósa alltaf hvert annað.. hef aldrei skilið það og hef reyndar yfirhöfuð aldrei haldið sérstaklega með Norðurlandaþjóðunum bara því þær eru okkur næstar. Þessi keppni er líka farin að snúast um að öll atriðin eru með eitthvað spes í gangi... það fer að verða þannig að löndin sem eru með venjulega söngvara, venjulegt lag og venjuleg föt.... séu óvenjulegust.
Í gær fannst mér lagið frá Belgíu flottast.... en nei, komust ekki áfram. Mér finnst Finnarnir hræðilegir, lagið er ógeðslegt og búningarnir... ég fæ martraðir....afhverju eru þeir ekki reknir úr keppni... annað eins hefur verið bannað innan 16 ára ha ? Svíþjóð er alltaf eins.... alltaf sama helv...formúlulagið frá þeim og alltaf eru þeir áfram. Litháar ... komu á óvart og flott lag og góður húmor. Skil hinsvegar ekki afhverju eftirtalin lönd komust áfram í gær; Armenía, Bosnía, Rússland, Makedónía, Úkraína og Tyrkland.....hmmmmm jú ég fatta það.. þetta eru allt austanþjóðir.

Var annars að lesa inn á Eurovision síðunni......þar er verið að spjalla.... getur verið að Silvía hafi komist áfram en hafi þegjandi og hljóðalaust verið rekin úr keppni....... þetta er ein kjaftasagan í Eurovisonlandi.

Áfram Danmörk !!

fimmtudagur, maí 18, 2006

 
Ég er farin að snúast í hringi af allri þessari kosningaumræðu, blaðaskrifum, fundum, loforðum, lygum, klaufaskap, klúðrum ...blablabla. Ég veit ekkert hvað ég á að kjósa. Það kemur reyndar bara einn flokkur til greina en valið stendur á milli hvort ég eigi að kjósa hann eða skila bara auðu.
Mér er lífsins ómögulegt að skilja afhverju og hvernig í ósköpunum bæjarstjórn datt í hug að samþykkja byggingu knattspyrnu"skúrs" núna þegar bæjarfélagið berst í bökkum. Mér er að sama skapi ómögulegt að skilja afhverju Sjálfstæðimenn samþykkja þessa byggingu þrátt fyrir að vera á móti henni. Það er þetta atriði sem fær mig til að fá efasemdir um Déið.....en.....hann hefur yfir góðu fólki að ráða. Eins mikil íþróttamanneskja og ég er þá er ég nú alfarið á móti þessu húsi sem ætlar að vera enn eitt klúðrið í hnappagat bæjarstjórnarinnar. Þetta hús er ekki í löglegri stærð, þetta hús verður með dúkþaki og þetta hús verður aldrei hægt að stækka. Sorry mér finnst bara önnur verkefni vera ofar á forgangslistanum og á meðan á að bíða og reisa svo almennilegt knattspyrnuhús þegar við höfum efni á því.

Ekki kýs ég Vaffið þar sem fyrsti maður þar á lista fer endalaust í taugarnar á mér og mér finnst algjör hræsni að hann skuli "þykjast" vera að vinna fyrir okkur en býr svo ekki einu sinni hérna og ég get ekki betur séð en hann hafi bara allt annað að gera en að hugsa um okkur hérna á litlu eyjunni.... ekki er hann duglegur að koma okkar sjónarmiðum á framfæri allavega á þingi og/eða í fjölmiðlum. Man ekki eftir að hann hafi gert nokkuð skapaðan hlut fyrir okkur. Ég líka treysti ekki Vaffinu og það er bara ekki flóknara. Inn á milli eru nú áhugaverðir karakterar þarna eins og Aldís og Laugi en það vegur því miður ekki upp á móti efsta manninum.

Hinn listinn þarna.... brandari, nenni ekki að tala um hann.

Mig langar að kjósa fólk...ekki flokka.... á þessum þremur listum er hið ágætasta fólk ekki misskilja mig þó ég kvarti og kveini ....yfirhöfuð líkar mér vel við flesta þarna sem eru jú hugrakkir að taka þátt í þessum slag og fórna sér.

Ég hef rétt rúma viku til að láta auða atkvæðið og skásta listann slást um x-ið mitt. Úllendúllendoff.......

þriðjudagur, maí 16, 2006

 
Ég er svo lengi í gang á morgnana núna... tók eftir þessu í fyrra líka að þegar byrjaði að birta og daginn tók að lengja þá var ég bara erfiðari og erfiðari að vakna og koma mér á lappir. Núna er ég að finna fyrir þessu aftur, finnst ég bara eins og ósofin og þreytt þegar klukkan hringir og er að mæta aðeins of seint á hverjum morgni. Er þetta "langdegisþunglyndi" ? Var að spá hvort birtan á morgnana geri það að verkum að maður nái ekki eins dýpri svefn eða hvað... en þetta er samt tilfellið með mig.

mánudagur, maí 15, 2006

 
Já ís er sko ekki ís nema hann sé ískaldur. Eins mikil sælgætisgrís og ég er þá er ég mjög vandfýsin á ís. Ég þoli ekki "heita" ísa... sem bráðna strax og eru mjúkir og rjómalegir. Ég vil kaldan ís. Ísinn á að vera harður og þéttur í sér og helst með smá "vatnsbragði" og smá ískristöllum.....svoleiðis ís er að mínu viti bara hægt að fá í ísbúð í Vesturbæ Reykjavíkur.. man ekki hvað hún heitir en það er besti ís í heimi, svoleiðis ís var líka hægt að fá í Novu þegar hún var og hét hér í Eyjum. Mér finnst MS ís betri en Kjörís því MS er harðari og kaldari.
Í den fékk ég mér ís með hrýfu og dís (dýfu og hrís) eins og mamma snillingur bað um einu sinni en ég naut hans aldrei almennilega því ég flýtti mér svo að borða hann áður en allt lak til helvítis þar sem undir var yfirleitt "heitur" ís.
Í gær fékk ég með bragðaref í ónefndri ísbúð hér í bæ... yfirleitt þarf ég að setja ísinn í frysti þegar ég kem með hann heim áður en ég byrja að borða hann.... hér fást bara "heitir" ísar.
Jæja þetta voru smá íshugleiðingar í tilefni dagsins.

fimmtudagur, maí 11, 2006

 
Sáuð þið Fyrstu skrefin í gær.... keisarann ?
Ég fylgdist límd með þessu og leyfði auðvitað keisaraynjunni henni dóttur minni að sjá líka hvernig hún kom í heiminn. Þetta var algjör snilld og vá hvað ég hefði borgað mikið fyrir að eiga keisarann svona á myndbandi. Þarna rifjuðust upp fullt af minningum síðan ég stóð í þessum sporum fyrir fjórum árum og allt æðislegar minningar. Man þegar við mættum eldsnemma upp á Lansa tilbúin í keisarann. Man hvað ég var spennt en þetta var samt svo óraunverulegt að það væri verið að fara að ná í barnið mitt. Man þegar ég var deyfð og fann hvernig lappirnar á mér lömuðust. Man eftir einni hjúkkunni sem var með hækju og mér fannst ég vera stödd í Bráðavaktinni. Man hvað ég var hrikalega forvitin að sjá þegar ég yrði skorin og mig langaði svo að fylgjast með og var svo hneyksluð á Brynjari að hann skyldi ekki vilja kíkja yfir tjaldið. Man að ég náði aðeins að fylgjast með í gegnum speglaljósið sem var fyrir ofan mig og sá bara blóð og pínkulitlar táslur. Svo fékk ég hana í fangið og ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Yndislegt.
Mér fannst þetta góður þáttur og gott sem hjúkkan sagði að keisarinn væri alveg jafn ánægjulegur og venjuleg fæðing. Ég hef nefnilega fengið fáránleg comment yfir að hafa farið í keisara.... og "þú hefur sem sagt misst af öllu ferlinu commentið" gerði mig fokreiða.... mér finnst þetta fordómar. Ég hefði sko ekki viljað skipta á þessari reynslu og annarri enda var hún mér mjög ánægjuleg. Ég hugsaði líka þannig að á meðan barnið og ég er ekki í neinnu hættu þá er ég mjög sátt og keisarinn er bara frábær leið til að koma litlu sitjandi barni í heiminn.

miðvikudagur, maí 10, 2006

 
Ég horfði á Kastljós í gær þar sem farið var stuttlega yfir yfirvofandi kosningar hér í bæ. Æ ég varð bara pirruð á að horfa á þetta... þetta er alltaf sama helv.... tuggan í þessum pólitíkusum og svo gerist aldrei neitt. Þetta er orðið eins og "brennt barn forðast eldinn syndrome" hjá mér... ég bara þori ekki að kjósa neinn þar sem ég treysti engum, sumir þarna væru nú vísir með að selja ömmu sína sko. Það stakk mig líka að það er engin ákveðin fjölskyldustefna í gangi og þá meina ég .... t.d. lækkun leikskólagjalda sem mörg hinna sveitarfélaganna eru að beita sér fyrir og má nú lækka þau hér því ég held þau séu með þeim hæstu á landinu ef ekki bara þau hæstu. Sá flokkur sem minnist á göng ég kýs hann ekki. Sá flokkur lifir í einhverjum draumaheimi og ef hann svo mikið sem minnist á að göng séu á næstunni og hann ætli að beita sér fyrir því og blablabla þá fær hann ekki mitt atkvæði. Ég vil bara nýjan Herjólf... það er raunhæft ekki göng eða Bakkafjöruvitleysu. Ég er ekki búin að ákveða mig en eins og staðan er í dag verður seðillinn auður hjá mér.. ég ætla að vona að það breytist með almennilegum loforðum sem verður svo staðið við og þá meina ég staðið við.
Annars væri ég alveg til í að bæjarstjórnin keypti Árna Sigfússon til að verða bæjarstjóri hér, sá er að gera góða hluti í Keflavík.

þriðjudagur, maí 09, 2006

 
Það er aldeilis dugnaður á kellingunni.... útihlaup í gær, lyftingar í hádeginu, fótboltaæfing í kvöld og útihlaup á morgun....úffffff ég ætti bara að fá verðlaun eða allavega medalíu um hálsinn.
Kannist þið annars við það að þegar þið eruð úti að hlaupa hvað allir glápa á mann..... agalega pirrandi og hvað þá þegar maður fer á línuskauta.... þá er sko starað á mann, skrýtið.

 

Snilld

Þetta er bara snilld að geta bókað svona á netinu hjá Herjólfi....bókað og borgað... i love netið.

mánudagur, maí 08, 2006

 

Sumarfrísþorsti

Úffff það eru 84 dagar þar til ég fer í sumarfrí....var að telja og mér blöskraði þessi dagafjöldi.. ég fer ekki í sumarfrí fyrr en í haust og núna vona ég að sumarið verði bara fljótt að líða svo ég komist í sumarfríið mitt sem fyrst. Mig er farið að þyrsta í sumarfrí og hvernig verð ég í lok júlí með tilliti til þess að í fyrra fór ég í sumarfríið mitt í apríl.... það er orðið ansi langt á milli þarna.

Eitt enn... í flestum kjarasamningum stendur og skráð að yngstu starfsmennirnir fá minnsta dagafjöldann í frí... á meðan þú græðir á því að eldast og færð þarafleiðandi meira frí. Hvaða VITLEYSA er þetta... ungt fólk með börn finnst mér mun frekar eiga að fá fleiri dagafjölda í frí heldur en eldra fólk með sjálfan sig eða allir eiga að fá sama dagafjölda í frí, ungir og eldri en eldri fá bara hærri laun.....eða hvað ??? Ég vil bara vera kennari.

fimmtudagur, maí 04, 2006

 

Töfrar 1-2-3

Ég er að lesa ótrúlega sniðuga bók. Hún heitir Töfrar 1-2-3 og fjallar um hvernig er best að aga börn á heilbrigðan hátt og á sem einfaldastan hátt. Hinar bækurnar á náttborðinu verða að bíða aðeins á meðan ég rúlla í gegnum þessa þar sem hálfgert neyðarástand er að skapast á heimilinu fyrir tilstilli litla skapofsapúkans. Rauði þráðurinn í þessum agareglum er að telja upp á þrjá og áður en þrír koma upp eiga börnin sem í leiðslu að hlýða skilyrðislaust. Í bókinni koma fram ótrúlega sniðug dæmi og fullt fullt af fáránlega algengum mistökum sem foreldrar gera við að reyna að aga börn sín.
Dæmi: Börn eru minnimáttar, þau eru minni en fullorðið fólk, ráða engu, kunna lítið og geta lítið...(miðað við fullorðið fólk). Hafið þið ekki séð hvað börn geta dundað sér við tímunum saman að henda steinum út á stöðuvatn svo það gusist upp úr því.... þarna er barnið að gera hlut sem það hefur algjört vald á og stjórnar gusunum...eftir því sem það hendir stærri stein út í þeim mun meiri verður gusugangurinn. Nákvæmlega það sama er hægt að yfirfæra á samskipti barna og foreldra. Barn byrjar að væla eða suða og foreldrið svarar á móti... hver kannast ekki við að á endanum er barnið búið að æsa foreldrið upp og svo mikið að barnið virðist hafa algert vald yfir mömmunni eða pabbanum. Þetta er ein reglan í bókinni... ekki láta barnið æsa þig upp því það gerir bara illt verra og að setja þetta upp svona lét mig skella uppúr því ég sá sjálfan mig svo fyrir mér þarna. Ég uppstökka mamman að rífast við litla skaphundinn dóttur mína. Algjörlega frábært. Ef þið sjáið mig útí búð að telja 1-2 þá er ég ekki að missa vitið... ég er bara að hafa stjórn á dóttur minni.

þriðjudagur, maí 02, 2006

 

Innkaupaferðin

Ég gleymi aldrei þegar ég fór einu sinni í búð til að kaupa fyrir heimilið það sem vantaði. Ég kom heim með einn poka og byrjaði að taka upp úr honum.... í ljós kom að ég hafði bara keypt blátt, man nú ekki alveg hvað ég keypti en allir hlutirnir í pokanum voru bláir; nýmjólk, pepsi, létt ABmjólk, piparbrjóstsykur (í bláum pokum), fetaost (blá krukka), stoðmjólk og eitthvað fleira blátt sem ég man ekki alveg.... ég gat nú ekki annað en skellt uppúr þegar ég sá þetta og hugsaði svo hvað ætli afgreiðslukonan hafi haldið um mig þegar hún renndi öllum þessum bláu vörum í gegn hjá sér.

mánudagur, maí 01, 2006

 

Bókaklukk

Hún Sigþóra klukkaði mig með aldeilis erfiðu klukki..... ég gerði mitt besta.
1. Which book has made the greatest impact on you? Either as a good read or as a "aha" experience?
Því miður get ég ekki tekið eina bók hérna út og verð því að nefna nokkrar af mínum allra uppáhalds uppáhalds.
Þegar ég var yngri hélt ég að Stephen King væri eini rithöfundurinn á bókasafninu og ég las því allar bækurnar hans og sumar tvisvar má þar helstar nefna Duld, Eldvakinn, Dolores Claiborne og Eymd. Svo fattaði ég að það voru til fleiri höfundar og fleiri tegundir af bókum. Ég held mikið upp á Ég lifi e. Martin Gray, Schindler´s List, Þjóð Bjarnarins mikla e. Jean M. Auel, Hulduslóð, Aldrei án dóttur minnar og Seld, Eyðimerkurblómið, Hann var kallaður Þetta, Ísfólkið (1-16), Piltur og stúlka (las hana í Framhaldsskóla og fannst hún algjört æði), Ilmurinn-saga af morðingja, Þyrnifuglarnir og svo auðvitað Da Vinci lykillinn sem fékk mig til að hugsa mig tvisvar um hlutina....úffff vona að ég gleymi ekki einhverri en þetta eru þær bækur sem koma fyrstar upp í hugann hjá mér.
2. Which genre do you read most? Novels, crime-stories, biographies, poetry or something else?
Bækur sem segja sögu fólks kynslóð eftir kynslóð svona nokkurskonar örlagasögur eru mínar uppáhaldsbækur og lífsreynslusögur eru einnig í uppáhaldi.

3. What was the last book you read?
Kláraði Mýrina e. Arnald Indriðason og hún var ekki að grípa mig. Núna er ég að lesa Korkusögu e. Vilborgu Davíðsdóttur og á náttborðinu mínu bíða svo Blekkingaleikur e. Dan Brown og Dexter sem er víst einhver óhugnanleg bók um fjöldamorðingja - það er sko minn tebolli.
4. Which sex are you?
Ég hef alltaf verið og er enn strákastelpa. Ætla að klukka Ásu frænku !!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<