fimmtudagur, maí 04, 2006

 

Töfrar 1-2-3

Ég er að lesa ótrúlega sniðuga bók. Hún heitir Töfrar 1-2-3 og fjallar um hvernig er best að aga börn á heilbrigðan hátt og á sem einfaldastan hátt. Hinar bækurnar á náttborðinu verða að bíða aðeins á meðan ég rúlla í gegnum þessa þar sem hálfgert neyðarástand er að skapast á heimilinu fyrir tilstilli litla skapofsapúkans. Rauði þráðurinn í þessum agareglum er að telja upp á þrjá og áður en þrír koma upp eiga börnin sem í leiðslu að hlýða skilyrðislaust. Í bókinni koma fram ótrúlega sniðug dæmi og fullt fullt af fáránlega algengum mistökum sem foreldrar gera við að reyna að aga börn sín.
Dæmi: Börn eru minnimáttar, þau eru minni en fullorðið fólk, ráða engu, kunna lítið og geta lítið...(miðað við fullorðið fólk). Hafið þið ekki séð hvað börn geta dundað sér við tímunum saman að henda steinum út á stöðuvatn svo það gusist upp úr því.... þarna er barnið að gera hlut sem það hefur algjört vald á og stjórnar gusunum...eftir því sem það hendir stærri stein út í þeim mun meiri verður gusugangurinn. Nákvæmlega það sama er hægt að yfirfæra á samskipti barna og foreldra. Barn byrjar að væla eða suða og foreldrið svarar á móti... hver kannast ekki við að á endanum er barnið búið að æsa foreldrið upp og svo mikið að barnið virðist hafa algert vald yfir mömmunni eða pabbanum. Þetta er ein reglan í bókinni... ekki láta barnið æsa þig upp því það gerir bara illt verra og að setja þetta upp svona lét mig skella uppúr því ég sá sjálfan mig svo fyrir mér þarna. Ég uppstökka mamman að rífast við litla skaphundinn dóttur mína. Algjörlega frábært. Ef þið sjáið mig útí búð að telja 1-2 þá er ég ekki að missa vitið... ég er bara að hafa stjórn á dóttur minni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<