fimmtudagur, desember 29, 2005
Annáll 2005
Árið byrjaði eins og venjulega með rakettum og fjöri heima hjá mömmu og pabba. Fengum dýrindis kalkún hjá þeim. Ég var róleg í tíðinni á gamlárskvöld eins og ég hef verið síðan dóttirin fæddist. Naut þess að drekka jólaöl og fylgjast með henni sprengja gamla árið í burtu. Vaknaði svo hress á nýársdag tilbúin í nýtt ár.
Janúar var rólegur og notalegur. Fórum í vikuferð til Reykjavíkur í byrjun janúar, leigðum íbúð með tengdó og versluðum eitthvað á útsölum. Héldum upp á þriggja ára afmæli Lindu Bjarkar þann 16. janúar og buðum nokkrum krökkum og mömmum þeirra (ekki láta pabbarnir sjá sig í svona veislum það er næsta víst).
Lítið markvert gerðist í febrúar. Ágætis loðnuvertíð var og Brynjar var á vöktum.
Í byrjun mars var haldið upp á fimmtugsafmæli mömmu í sumarbústað í Ölfusborgum.
Sumarfríið var tekið snemma á árinu og það var ógleymanlegt. Flogið var ásamt tengdó út til Bandaríkjanna nánar tiltekið Minneapolis þann 4. apríl og svo áfram til Phoenix. Þar tók bróðir Brynjars á móti okkur og við selflutt í glæsihús Robba Guðfinns í Anthem í Phoenix. Síðan tók við hvert ævintýrið á fætur öðru, í stuttu máli: Frá Robba var keyrt til Alla frænda í Los Angeles og kíkt í smá heimsókn (of stutt samt, stoppum lengur hjá Alla næst). Í LA var gist á hóteli í fjórar nætur og Disneyland, Sea World, Hollywood, Beverly Hills, Laguna Beach, Santa Monica, Chinatown og fleira heimsótt. Frá LA var haldið til glamúrborgarinnar Las Vegas og þar gist í þrjár nætur. Þaðan var haldið til Grand Canyon og svo áfram til Phoenix þar sem var gist í tvær nætur, verslað og farið á tónleika með U2 í 17000 manna troðfullri íshokkýhöll og mín fór ekki með myndavél á tónleikana – bömmer.Frá Phoenix var svo haldið niður til Mexíkó þar sem bróðir Brynjars og hans fjölskylda býr. Það var ævintýri útaf fyrir sig að vera í c.a. 200.000 manna bæ þar sem enginn túrismi var fyrir hendi. Við kynntumst frábærri matargerð og er mexíkanskur matur í heiðri hafður á okkar heimili eftir þessa ferð og eldamennskan fór út í sterkari krydd en áður var eins og jalapeno sem er algjörlega ómissandi með mexíkönskum mat. Í Mexíkó dvöldum við í tvær vikur við góðar aðstæður ef frá eru taldar eðlur á veggjum, kakkalakkar og maurar, moskítóflugur og allskyns fleiri óvinir mínir. Ég komst þó heil frá öllu saman enda vorum við á fínum tíma ef hugsað er út í skordýr, hita og raka. Farið var í tveggja ára afmælisveislu þar sem boðið var upp á endalaust magn af bjór og tequila, snekkjusiglingu meðfram ströndum Mex, verslunarleiðangra í gamla markaðinn (svipað og Kolaportið), verslunarleiðangra í Hermosillo (næsta borg við aðsetur okkar), út að borða á besta nautasteikarstað í heimi og fleira og fleira.
Við komum svo aftur heim þann 8. maí og þá var sumarið að byrja á Íslandi en við búin með okkar sumarfrí. Það er strax farið að plana næstu ferð.Ekki var lengi lognmolla í kringum okkur því þann 21. maí var haldið upp á þrítugsafmæli Brynjars í Skátastykkinu hér í bæ. Hingað mættu flestir vina hans úr Reykjavík og gistu. Þetta afmæli er ein sú allra besta skemmtun sem ég hef upplifað enda allir í sínum besta gír.
Í júní byrjaði ég að æfa fótbolta aftur með old-girls og kölluðum við okkur því konunglega nafni Eðalkvenmenn ÍBV. Þetta var hin mesta skemmtun þrátt fyrir smá álagsmeiðsl og vonandi að framhald verði á næsta sumar.Ég varð líka 29 ára gömul í lok júní og fagnaði því í rólegheitum heima hjá mér með Shellmótsgesti utan af landi. Það verður tekið betur á því á næsta ári.
Farið var í helgarreisu til Siglufjarðar í byrjun júlí á árgangsmót hjá Brynjari.Þjóðhátíðin var að vanda tekin með trompi og fengu tveir frábærir peyjar að gista hjá okkur á Faxó yfir hátíðina þeir Gummó og Jónas Logi. Þeir höfðu aldrei upplifað Þjóðhátíð áður og var gaman að upplifa þetta allt saman með þeim og vonandi að þeir komi galvaskir á næstu Þjóðhátíð. Einnig mætti hún Sigga mín eins og vanalega og vonandi að hún haldi því áfram. Þessi Þjóðhátíð var líka aðeins öðruvísi hjá okkur Brynjari því þetta var í fyrsta skiptið sem við vorum sjálf með tjald og buðum við Ásu frænku að vera með okkur í tjaldbúskapnum og sáum við sko ekki eftir því enda með afbrigðum skemmtileg og hress stelpa og sjaldan hefur sést svo flott kaffiborð á föstudeginum eins og í Skvísusundi 16– vonandi að hún verði aftur með okkur á næsta ári og hver veit nema Lotta sjái sér fært að kíkja yfir Atlantshafið aftur.
Ættarmót Reynistaðarfjölskyldunnar var haldið í Goðalandi við Hvolsvöll um miðjan ágúst. Við fórum með tjaldið okkar góða og gistum tvær nætur undir tjaldþaki og skemmtum okkur konunglega með frábæru fólki. Allt gekk vel sem betur fer. Ég og Ása sáum um að skipuleggja mótið og ekki laust við að stressið fylgdi okkur þessa helgina.Lundapysjuvertíðin klikkaði all harkalega og fengum við aðeins tvær pysjur til að sleppa, nánar tiltekið við fengum þær gefins.
Árgangsmót hjá mínum árgangi var haldið í byrjun september og var mikið fjör þar. Ég fór að vísu bara annað kvöldið og skemmti mér vel að ég held og að mig minnir..... eitthvað var tekið of mikið af skotum og þessi fræga setning “það fer aldrei víndropi inn fyrir mínar varir aftur” heyrðist daginn eftir.Litla dóttir mín fór í Íþróttaskólann í september og fór á æfingu í hverri viku í rúma tvo mánuði. Við skemmtum okkur æðislega og ég er alveg á því að þarna fer fyrir upprennandi íþróttastjarna framtíðarinnar.
Sálin hans Jóns míns var með dansleik í Höllinni í lok október og auðvitað mætti mín á það ball... skemmti sér ágætlega en hefur séð hljómsveitina í betra formi.
Í nóvember brugðum við Brynjar okkur til Reykjavíkur og gistum á Nordica Hótel eins og kvikmyndastjörnur. Fórum í þrítugsafmæli til Jónasar Loga og höfðum það huggulegt í Reykjavíkinni.
Desember var yndislegur í alla staði. Farið á eitt jólahlaðborð og svo bakað og skreytt húsið. Minn uppáhaldsmánuður. Jólin hefðu hinsvegar mátt lenda á öðrum dögum svo meira frí fengist en þetta var svona í það allra stysta.
Frænkuklúbburinn okkar frænkna af Reynistaðarfamilíunni gekk sinn vanagang á árinu og svo var mér boðið að vera með í saumaklúbb með öðrum stelpum og þáði ég það enda alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk undir góðu spjall svo ég tali nú ekki um kræsingum.
Ég eignaðist líka yndislega vinkonu á árinu, hana Freyju mína. Kynntist henni í gegnum vinnufélaga Brynjars og þetta er ein sú besta stúlka sem ég hef kynnst. Yfir því er ég mjög þakklát og ánægð þar sem ég skildi flesta mína vini eftir í Reykjavík þegar ég flutti hingað til Eyja.
Ég er svo búin að vera í ýmsustu störfum hérna í Sparó á árinu og hef í rauninni gengið í allt nema gjaldkerann. Núna er ég ánægð í innheimtunni og fíla mig bara vel í því djobbi og það er greinilega eitthvað sem ég á að vera í til frambúðar ef ég fer ekki í kennaranám eða annað kemur uppá.
Held ég hafi yfir engu að kvarta enda allir verið hraustir á árinu ef frá er talið þessi hefðbundnu kvef og “venjulegu” veikindi. Afi minn hefur að vísu verið tæpur til heilsunnar en nær einhvern veginn alltaf að berjast út úr því enda stórkostlegur persónuleiki þar á ferðinni– held hann fari langt á þrjóskunni og jákvæðninni karlinn.
Læt þetta duga í bili og held ótrauð út í 2006. Vonandi verður það mér og mínum og ykkur öllum gott og farsælt.
Gleðilegt ár !