þriðjudagur, desember 13, 2005

 

Aðventan



Á þessum tíma fæ ég alltaf svo góða og yndislega tilfinningu fyrir lífinu. Maður verður eiginlega bara væmin sko en það má alveg. Aðventan er algjörlega mitt uppáhald og ég reyni að njóta hans í botn. Skrýtið því á meðan ég nýt aðventunnar í dag og vilji að þessir dagar líði sem lengst þá var það allt öðruvísi þegar ég var lítil. Aðventan var í mínum huga tími sem átti að líða og það helst strax svo jólin kæmu. Þá beið maður eftir jólunum sjálfum. Núna er aðventan jólin í mínum huga og bara allur desember finnst mér á allan hátt yndislegur. Það er verið að stússast við að baka, skrifa á jólakort, þrífa með jólalögin í botni, horfa á jólabíómyndir, skreyta , kaupa gjafir og pakka þeim inn og síðast en ekki síst að fylgjast með barninu sínu upplifa þennan spennandi tíma. Þau eru svo einlæg í þessu öllu saman og það er svo mikið um að vera hjá þeim. Jólasveinninn kemur og gefur í skóinn og ég veit ekki hvor er spenntari fyrir því ég eða dóttirin. Litla skvísan var komin í náttfötin klukkan fimm í gærdag... bara svo hún yrði tilbúin í rúmið sko eins og hún sagði sjálf.
Það þarf ekki mikið til að gleðja þessi litlu skinn. Ein mandarína og lítið sápustykki vakti mikla lukku í morgun þegar mín kíkti í skóinn sinn. Alveg frábært bara.
Á fimmtudaginn byrjar svo hér í vinnunni leynijólasveinaleikur og það eru allir meira en lítið spenntir fyrir því batteríi.
Það er svo nóg að gera í að horfa á jólamyndir fram að jólum; ætla að horfa á Jólasögu í einhverri útgáfunni, Christmas with the Kranks og Polar Express. Hlakka bara til ..... með malt og appelsín og kertaljós og núna vantar bara snjóinn.

Að lokum vildi ég óska mínum elskulegu foreldrum innilega til hamingju með 30 ára brúðkaupsafmælið í dag. Flott hjá þeim. Sannar að brúðkaupið sjálft þarf ekki að vera eins og klippt út úr tískublaði til að hjónabandið endist - hún mamma mín gifti sig nefnilega í svörtum kjól....hehehehehe.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<