þriðjudagur, desember 27, 2005
Á milli jóla og nýárs
Áttum annars fínustu helgi þó þetta hefði mátt vera aðeins lengra hjá manni. Þurfti að mæta í vinnu í morgun og það var ekki beint skemmtilegt en hafðist. Helgin var í stikkorðum:
- Þorláksmessa: Skötuveisla hjá Maddý og Erlingi-borðað yfir sig. Göngutúr í bænum í góðri stemmningu. Jólatréð skreytt, graflax, hvítvín, jólaöl og snakk. Hlustað á jólakveðjurnar (þangað til "sumir" settu yfir á það allra ójólalegasta sem til er; tónleika með Bubba Morthens - mín var fljót að setja jólageisladisk í tækið smá pirruð).
- Aðfangadagur: Vaknað snemma. Kíkt í skóinn og þar leyndist pakki frá "jólasveininum". Kíkt á barnaefnið. Eftirrétturinn græjaður. Kíkt á barnaefnið aftur og nartað í konfekt. Klárað að taka til og gera fínt. Farið uppeftir til mömmu og pabba og fengið sér flatkökur með hangikjöti (bara á jólum og á þjóðhátíð). Humar, hamborgarhryggur og litla syndin ljúfa í matinn hjá okkur í þessari röð - borðað yfir sig. Opnuðum pakkana. Allir himinlifandi og ánægðir yfir gjöfunum. Bók fyrir svefninn.
- Jóladagur: Vaknað snemma. Kíkt á barnaefnið. Stelpan prófaði allt dótið sitt. Legið í leti fyrir framan sjónvarpið og borðað konfekt. Jólaboð hjá mömmu og pabba með dýrindis kökum og heitum réttum - borðað yfir sig. Hangikjöt hjá mömmu og pabba um kvöldið - borðað yfir sig. Kvöldið klárað heima yfir DVD jólamynd og snakki, ostum og konfekti. Bók.
- Annar jóladagur: Vaknað snemma. Barnaefnið. Leti. Sjónvarpið. Kaffi og konfekt. Notalegheit og sjónvarp um kvöldið. Seint í háttinn og bók.
Það er ekki laust við að maður verði bara saddur af að lesa þetta aftur yfir... jahérna hér... og þar sem ekki viðraði til göngutúrs þá hékk maður bara inni alla helgina. Það var gott að komast í ræktina í hádeginu í dag.
Næst er það svo gamlárskvöld. Held mig inni þegar sprengt er... er bara hrædd við öll þessi læti. Hætti alveg að taka þátt í þessum sprengjum þegar ég skaut einu sinni rakettu beint í fangið á nágrannanum.... hef ekki snert þetta síðan mér brá svo. Svo er ég svo agalega nísk að kaupa þetta dótarí en það er önnur saga.
Hafið það gott!