sunnudagur, febrúar 12, 2006

 

Súkkulaðiverksmiðjan, Da Vinci og Tórínó

Á meðan hálfur bærinn skellti sér á ball með Greifunum og Brynjar fór á loðnuvakt þá áttum við mæðgur kósýkvöld á laugardagskvöldið. Við tókum okkur "Charlie and the Chocolate factory" og fannst stelpunni mikið til hennar koma (eins og reyndar mamman líka), popp og kók og bara gaman hjá okkur, verst var að myndin var ekki til með íslensku tali þannig að ég þurfti að svara ótal spurningum og segja hvað væri að gerast þarna og afhverju þetta væri og hvað stæði í blöðunum og fleira og fleira. Daginn eftir vildi stelpan horfa aftur á myndina og popp og kók takk.... það síðarnefnda fékk hún nú ekki enda klukkan rétt gengin ellefu um morguninn en það mátti reyna.

Af lestrarmálum er það að frétta að ég er komin á bólakaf í Da Vinci lykilinn. Hún er ansi góð og það verður gaman að sjá kvikmyndina því það er svo margt í bókinni sem gerir mann forvitinn að sjá. Lauk annars við bókina "Myndin af pabba" eftir Gerði Kristnýju í millitíðinni (tók þriggja daga frí á Da Vinci). Þessi bók gerði mig bara reiða. Mér fannst hún bara ógeðsleg og sorgleg.

Þessa dagana er svo hátíð í bæ hjá kellingunni. Vetrarólympíuleikarnir í Tórínó. Skemmtilegustu sjónvarpsíþróttir sem ég sé. Skautahlaup, skíðaskotfimi, hólasvig, listdans á skautum (óhefðbundin aðferð), bobsleðar, brun, risastórsvig og fleira og fleira.... datt líka svona inn í setningu leikanna og þetta var svakalegt, þvílík og annað eins sjónarspil. Núna get ég varla beðið eftir að fara til "The Sigló-Alps" um páskana og renna mér niður snæviþaktar brekkurnar á flottu rauðu carving skíðunum mínum...... fá mér svo heitt kakó með rjóma og vöfflu í skálanum og ískaldan bjór þegar komið er niður úr fjallinu - það er fátt sem toppar það.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<