miðvikudagur, mars 01, 2006

 

Fermingardagurinn minn

Hún Ása uppáhaldsfrænka mín bað mig um að rifja upp fermingardaginn minn og mín er ánægjan... vessegú:

Það er 12. apríl árið 1990. Ég er að fara að fermast. Ég man þennan dag alveg ágætlega. Ég man sterkt eftir því að það var ofboðslega fallegt veður, sól og kalt og hvít föl yfir bænum. Ég vaknaði eldsnemma og enginn annar en Brósi (skáfrændi) kom til að græja hárið á mér fyrir þennan stóra viðburð. Ég man vel eftir því að hann spurði mig hvernig ég vildi hafa hárið. Ég strákastelpan vildi auðvitað bara hafa tagl eins og alltaf, ég vildi ekki sjá eitthvað dúllerí og blómahaf í hárinu á mér, bara einfalt og töff. Þessi ákvörðun mín með hárgreiðslu á fermingardaginn lýsir mér bara ansi vel... ég vil hafa hlutina einfalda og engan glamúr. Brósi gerði þetta flotta háa tagl í hárið á mér og ég var bara ansi ánægð með þetta. Fötin....hmmmmmm....við mamma völdum fötin í sameiningu og ekki kom til greina fyrir strákastelpuna að fara í kjól eða pils þannig að jakkaföt urðu fyrir valinu og engin venjuleg jakkaföt heldur dökkblá (navy) sjóliðaföt með gullhnöppum og hvíta skyrtu... já ímyndið ykkur bara. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að fermingarstelpur máluðu sig og var ég engin undantekning.... það var ekki hreyft við einu augnhári.
Á leiðinni í kirkjuna fékk ég kvíðakast því ég mundi allt í einu að við áttum að vera búin að læra trúarjátninguna utanað.... ég gleymdi því og rauk í hendingskasti í bókina og reyndi af veikum mætti að lesa aftur og aftur yfir hana en ... ég hreyfði á endanum bara varirnar í kirkjunni og sem betur fer var ekki einn og einn tekinn upp þá væri ég líklega ófermd ennþá eða hvað. Þau sem fermdust með mér voru t.a.m. Anna Hulda, Hildur Sæ, Bjarnólfur, Malli, Hjölli Þórðar, Markús Orri, Eva Vals og fleiri snillingar... hér er bara mynd af okkur öllum saman og reynið bara að finna mig...hahahahaha.
Kirkjuathöfnin gekk annars vel og fljótt fyrir sig og án gríns ég vissi ekki að heima biðu mín trilljón pakkar, ég var bara ekki búin að gera mér grein fyrir þessu umstangi og veislan úffff... Fyrir veisluna fór ég í ljósmyndatöku til Óskars heitins, ég á allar myndirnir á vísum stað og ég á ekki skanna þannig að þið fáið enga mynd af mér hér í fermingarfötunum.
Veislan var svo haldin í Alþýðuhúsinu og boðið var upp á hlaðborð og svo kaffi og kökur á eftir og í fermingarveisluna mínu mættu hátt í 80 manns enda stór fjölskylda og Ása...... þú varst þarna líka ég gáði í gestabókina, ég man hinsvegar ekkert eftir þér. Ég fékk 118 þúsund krónur í peningum sem var mjög há upphæð á þessum tíma og keypti ég mér Amiga tölvu fyrir peninginn. Ég fékk nánast enga skartgripi í fermingargjöf og þótti það frekar furðulegt hjá stelpu en þessir elskulegu ættingjar mínir þekktu mig greinilega mjög vel... vissu alveg að ég vildi ekkert glingur, ég var ekki þannig týpa. Ég man sérstaklega eftir fermingargjöfinni frá systrum pabba; ferðahljómflutningstæki með geislaspilara... ég hafði bara aldrei séð geisladisk og fékk lánaða geisladiska frá frænda mínum til að geta prófað spilarann. Einn diskurinn var Rattle and Hum með U2. Rúmið frá mömmu og pabba var líka æði, risastórt, svart rimlarúm og útvarpsvekjarinn frá Hjördísi sys vakti mikla lukku. Ég fékk líka ótrúlega mörg skeyti frá hinum og þessum og yfirleitt þekkti ég ekki nöfnin en mér þótti ofboðslega vænt um þau. Þegar ég lít til baka þá hugsa ég helst um það hvað mikið er gert úr þessum degi og þegar maður er 13 ára þá gerir maður sér ekki grein fyrir hversu foreldar og ættingjar gera mikið til að hafa þennan dag og áfanga sem eftirminnilegastan. Sumir komu mjög langt að bara til að samgleðjast fermingarbarninu. Þetta var allavega yndislegur dagur hjá mér og mér þótti mikið til alls tilstandsins koma. Takk fyrir mig.
Mig langar til að heyra hvernig fermingardagurinn hennar Siggu minnar hafi verið og ekki skemmir fyrir að sjá fermingarmynd með.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<