sunnudagur, júlí 16, 2006

 

Alveg merkilegt að skoða Vestmannaeyjar með augum útlendings. Hún Karla er búin að gera ansi margt á þessum tíu dögum sem hún hefur dvalið hérna... held hún sé búin að gera meira en ég.. en það er nú samt ekkert furðulegt þar sem ég er nú ekki mikið fyrir fjallgöngur og annað bras. Hún er búin að fara upp á Heimaklett (ekki ég), hún labbaði Dalfjallið á enda (ekki ég), hún fór í hestaferð um eyjuna (ekki ég), hún fór inn í helli sem ég man ekki hvað heitir og þarf að skríða ofaní (ekki ég). Ég er greinilega ekki að standa mig en Heimaklett ætla ég ekki uppá (fæ bara í hnén og magann þegar ég sé myndir sem eru teknar þaðan), Dalfjallið hef ég ekki áhuga á að labba þar sem öðru megin við það er þverhnípt niður og í svoleiðis aðstæður fer Matthildur ekki sjálfviljug, hestaferðina væri ég nú alveg til í að fara í.... á hana inni seinna, hellinn fer ég aldrei inní nema líf mitt liggi við.... ég skríð ekki ofaní holu í jörðunni mér til skemmtunar. En jæja.. hún Karla var allavega afar hrifin af eyjunni en væri nú samt ekki til í að búa hérna, henni finnst þetta of lítið. Fyrir manni sjálfum er náttúrufegurðin hérna svo sjálfsögð, með tímanum venst maður þessu og hættir að taka eftir þessu.
Fyrir þremur árum síðan þegar ég flutti hingað aftur úr Reykjavík þá tók ég einmitt eftir þessu. Ég var alsæl með náttúruna í kringum mig. Labbaði í vinnuna og horfði í kringum mig, horfði á fjöllin, græna grasið, úteyjarnar og fann graslyktina og peningalyktina. Elskaði þokusuddann, rigninguna og þetta "eyjaveðurfar". Mér fannst ég nátengd náttúrunni. Ég fattaði það ekki fyrr en þá hvað það er stórfenglegt að sigla inn í innsiglinguna í fallegu veðri, algjörlega spes fyrir fólk sem hefur aldrei komið hingað. Þetta eru hlutir sem manni finnst svo sjálfsagðir þegar maður venst þeim og þetta eru hlutir sem maður sér held ég ekki nema maður missir þá í einhvern tíma.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<