mánudagur, október 31, 2005

 

Helgin í hnotskurn

Get ekki sagt annað en að helgin hafi verið mér ljúf. Föstudagurinn byrjaði með hvelli, fyrsta alvöru vetrarveðrið skall á og mín var auðvitað hæstánægð með bylinn og snjókomuna, var meira að segja óskað til hamingju með veðrið hehehe.
Ég ákvað að labba á leikskólann og í vinnuna og sá ekki eftir því í hádeginu þegar ég frétti af því að fólk væri að festa bílana sína á víð og dreif. Ég hafði greinilega vit á því að fara ekki á bílnum, þó ég eigi þennan fína "snjóbíl" (Subaru) þá einfaldlega treysti ég ekki sjálfum mér að keyra í snjó. Tókst einu sinni á einhvern undraverðan hátt að festa gamla SAABinn okkar við Þjóðarbókhlöðuna í Reykjavík og það var bara smá slabb..... skammaðist mín ekkert smá. Ég komst því allra minna ferða auðveldlega á tveimur jafnfljótum, klæddi mig bara vel og fór í gönguskóna. Kvöldið var svo ansi notalegt heima með kertaljós og við mæðgur horfðum út um gluggann á fólkið sem var að festa sig í götunni... án gríns.... hvað fær fólk til að fara út í svona veður á vanbúnum bílum - löggan mætt á svæðið og allt. Einn fór meira að segja í lúguna í Tvistinum og fór ekki af stað aftur.... hann festi sig.
Á laugardagsmorgun fórum við mæðgur snemma út og ætluðum að búa til snjókarl en það var ekki hægt þannig að mamman útbjó þetta fína snjóhús, mokaði innkeyrsluna og gangstíginn... já maður verður nú að nýta snjóinn á meðan hann er.
Kellingin kíkti uppí Höll á laugardagskvöldið. Var búin að ákveða að vera bláedrú og stóð við það... var í vatninu allt kvöldið og skemmti mér konunglega - var hinsvegar ansi hissa á öllu þessu fylleríi strax þegar mætt var á svæðið....vá hefði ekki getað trúað þessu en maður tekur eftir ýmsu þegar maður er edrú. Fór heim eftir skemmtiatriðin og beint í bað og öll fötin beint í þvottavélina - hata reykingalyktina og mig sveið í augun yfir öllum reyknum. Spurning um að gera þetta að reglu þ.e. að drekka bara vatn þegar eitthvað er í gangi... manni líður svo miklu betur við það.... vantar að vísu danskjarkinn en það er allt í lagi. Vaknaði svo eldhress um morguninn og tók stelpuna í sleðaferð, dró hana alla leið uppeftir til ömmu og afa í kaffi og svo fórum við að bruna og það var sko gaman. Stelpan er á æðislegum aldri (hef reyndar sagt það frá því hún fæddist). Núna er hún sko orðin nógu stór til að fara í bíó og mamman nýtir sér það í botn. Fórum í annað sinn í bíó í gær. Sáum Madagascar og hún var bara skemmtileg, popp og kók - skemmtum okkur konunglega. Takk fyrir mig.

fimmtudagur, október 27, 2005

 

Bókin og sjónvarpið

Ég er að gefast upp á bókinni sem ég er að lesa (Steiktir grænir tómatar). Fattaði eitt kvöldið þegar ég var að lesa að ég var búin að lesa þrjár blaðsíður og mundi bara ekkert hvað ég var að lesa um. Þessi bók er allavega ekki að klófesta mig eins og fyrri bækur sem ég hef verið að lesa. Ætla samt að gefa henni smá séns og athuga hvað gerist - annars bara skila ég henni og tek aðra bók af listanum mínum - no prob.

Það er lítið að frétta og lítið að gerast hjá kellingunni þessa dagana. Aðallega sjónvarpsdagskráin sem heillar á kvöldin. Er búin að taka eftir að Stöð 2 er alveg að tapa sér í öllum þessum stuttu amerísku grínþáttum sem eru allir eins, þoli þá ekki. Föstudagskvöldin eru t.a.m. hlaðin þessum grínstubbum ef frá er talið Idolið. Alveg mega þeir missa sín þessir þættir og eins finnst mér margir af þessum amerísku framhaldsþáttum allir eins eins og allir læknaþættirnir í sjónvarpinu - hvað er í gangi ??? svo er ég eiginlega alveg hætt að geta fylgst með þessum læknaþáttum því yfirleitt er barn sem deyr í þeim og þá er ég búin að vera, grenjandi og með kökk í hálsinum - nenni ekki að líða svoleiðis. Það er þá helst Idolið, 4400, Apprentice auðvitað og svo hef ég gaman af Wife Swap, Opruh, Sjálfstætt fólk og Jóa Fel.. meira er það ekki. Spurningin er því hvort maður tími að hætta með Stöð 2 eða hvort maður tími að halda áfram að borga af Stöð 2.

Annars er stórt ball um helgina. Ætla að láta mér nægja að fara á matinn og skemmtiatriðin og svo heim eftir það. Alveg nóg fyrir mig.

laugardagur, október 22, 2005

 

Í dag er fyrsti vetrardagur....




... og í tilefni af honum vildi ég óska ykkur gleðilegs veturs.

fimmtudagur, október 20, 2005

 

Ný manneskja

Nýkomin úr klippingu og þvílíki munurinn - er ekki fjarri því að sjálfstraustið aukist við það eitt að fara í klippingu. Er reyndar búin að hafa leiðinlega hárdaga síðustu vikur þar sem ég er að reyna að safna og hárið á mér er svo slétt að það er bara algjörlega sleikt á hausnum á mér og svo rúllast það alltaf upp að aftan og toppurinn lætur ekki að stjórn og mér finnst ég bara púkaleg með þetta hár. Vildi að ég gæti bara fengið Mæju klippara til að koma til mín á hverjum morgni og laga hárið áður en ég fer út því aldrei get ég gert eins fínt og hún. Nú er kellingin komin með stuttan topp þannig að hann á ekki að vera til vandræða í bili og það verður haldið áfram að safna aðeins meir.
Talandi um hár- vildi óska að Viska byði upp á námskeið í "hárgreiðslufræðum" fyrir byrjendur. Ég er alveg í vandræðum með hárið á stelpunni því ég kann ekkert að gera neitt við þetta fallega hár sem hún hefur. Ég kann bara að gera tagl og tígó og svo set ég spöng endrum og eins .... vildi óska að ég kynni að búa til fléttur og ekki væri verra að geta gert fastar fléttur eins og þær á leikskólanum dunda sér stundum við, tími varla að taka það úr hárinu á henni það er svo flott.

miðvikudagur, október 19, 2005

 

Nei ég er sko ekki matvönd en.....

Ég er ekki matvönd manneskja - því fer fjarri, borða nánast allt sem að kjafti kemur en á samt sem áður mína spretti í sérvitringshátt. Rúsínur eru eitt af mínum veikleikum. Ég get ekki borðað mat sem inniheldur rúsínur. Til dæmis þarf ég að plokka allar rúsínur úr kökum og brauðum ef það er hægt - get ekki borðað kökur eða brauð með rúsínum í - fæ bara algjöra klígju. Fékk gefins heimagert slátur um daginn og ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég fann að það voru rúsínur í blóðmörinni - ég hélt ég myndi æla og ekki var hægt að taka þær úr þannig að ég sleppti því að borða blóðmörina - alveg með rúsínuhrollinn í mér lengi á eftir. Rúsínur í grjónagraut virka heldur ekki á mig - ætlaði að prófa um daginn að strá nokkrum yfir, ég var ekki lengi að týna þær aftur uppúr. Það skrýtna við þetta allt saman er að mér finnst rúsínur mjög góðar og get borðað þær alveg einar og sér og ekki er verra ef þær eru súkkulaðihjúpaðar.
Eins með appelsínur. Get ekki borðað appelsínur, finnst þær vondar og mér finnst vond lykt af þeim, eins með Trópí með aldinkjöti - get ekki drukkið það útaf draslinu. Samt borða ég á hverjum degi ristaðbrauð með osti og appelsínumarmelaði (að vísu bara hlaupið sjálft ekki draslið) og mér finnst mandarínur góðar ef þær eru vel súrar.
Mér finnst lambakjöt ekki gott... jú læri er ágætt ef ég fæ rauðkál með því. Lærissneiðar í raspi finnst mér hræðilegar því þá sé ég ekki fituna og það allt sem ég þarf að skera í burtu. Þoli ekki þegar ég borða kjöt og það heyrist svona smellur í fitunni ojjj.
Ég borða allan fisk og þá meina ég allan nema siginn fisk og þorsk. Smakkaði á signum fiski fyrir ekki svo löngu síðan og mér fannst ég vera að borða bein og það er nóg fyrir mig að finna eitt bein í fisk og þá er ég hætt og búin að missa matarlystina. Þorskurinn er góður á bragðið en til að ég borði hann þyrfti að ljúga að mér að hann væri ýsa því mig hryllir við að borða hann eftir að hafa verið að týna trilljón orma úr honum hérna í gamla daga þegar ég vann í Ísfélaginu, ojj hvað það voru margir ormar stundum í einu flaki.
En jæja man ekki eftir fleirum atriðum.... en hvað með ykkur ???

þriðjudagur, október 18, 2005

 

Næsta bók á dagskrá er...

...."Steiktir grænir tómatar".
Kláraði "Svo fögur bein" í fyrradag og hún var bara nokkuð góð, bjóst samt við að hún væri betri enda búin að gera mér miklar vonir með hana. Hún var samt mjög góð og skilur mikið eftir sig, vel skrifuð, átakanleg og sorgleg. Fór svo á Bókasafnið í gær með langan lista af fýsilegum bókum; allt bækur sem þið hér höfðuð bent mér á. Ég ætla svo að vera fljót að lesa þessa bók því það eru ansi margar bækur á listanum sem kalla á mig.

Heyrnin er annars komin í lag. Náði sjálf að losa um stífluna með sprautu og heitu vatni og vááá hvað það var skrýtið að heyra aftur. Þvílíkur léttir. Fór að velta því fyrir mér hvort ég hafi ekki bara verið með einhverja stíflu í einhvern tíma því ég heyrði þvílíkt vel og allt var svo tært og hreint. Þegar vinstra eyrað var komið í lag þá fann ég að hægra eyrað var eitthvað stíflað fyrir en ekkert alvarlega... ætla að græja það í dag - verð þá fullkomnlega í STEREÓ, en þvílíkur munur og léttir að heyra aftur.

mánudagur, október 17, 2005

 

...og aftur til læknis í þriðja sinn.

Hvað er í gangi með mig.... í þriðja sinn á rétt rúmlega mánuði þarf ég að fara til læknis - vonandi er þetta komið í bili. Fyrst var það augnvírusinn svo sýkingin í puttanum og núna er það heyrnarleysið. Ég heyri bara með öðru eyranu og það er vægast sagt mjög óþægilegt og pirrandi og ég verð bara geðill af að vera svona. Fólk þarf að hækka róminn til að ég heyri og ég vaknaði næstum því ekki við vekjarann í morgun því ég lá á eyranu sem ég heyri með.
Vonandi virkar málshátturinn "allt er þegar þrennt er" og ég þarf ekki aftur til læknis í bráð.

Helgin var annars fín hjá heyrnleysingjanum. Er búin að hafa það svo gott undanfarnar helgar að ég er ekki að nenna að fara á ball um næstu helgi. Gerði eiginlega ekki neitt... jú skúraði og tók til... lék við stelpuna og glápti á sjónvarpið.
Tók dvd mynd á laugardagskvöldið "Sin City" og horfði á hana í kortér og hætti þá, leist ekkert á blikuna - þarf greinilega að setja sig í einhverjar spes stellingar til að horfa á þá mynd - endaði á að horfa á Big með Tom Hanks á Stöð 2 sem er ein besta mynd sem ég hef séð og vakti góðar minningar. Man ekki hvað ég horfði oft á þessa mynd hérna í gamla daga en þau voru ófá skiptin.

Þessar helgar eru annars svo fljótar að líða og reyndar vikan öll að ég verð komin á elliheimili áður en ég veit af.... og án efa með heyrnartæki í öðru eyranu.

laugardagur, október 15, 2005

 

Ekki er öll vitleysan eins


Jeminn eini. Var að lesa í DV að hjónakornin væntanlegu Tom Cruise og Kate Holmes eigi von á barni....allt í lagi með það og gott og blessað en...... skv. Vísindakirkjunni sem Tommi og Kata eru í þá verður fæðingin og uppeldið á þessu blessaða barni vægast sagt furðulegt. Í fæðingunni á að vera algjört hljóð, enginn má tala og Kata má ekki láta heyra í sér á meðan hún fæðir barnið - engin öskur, ekkert tal og ekki einu sinni má hún sýna svipbrigði að hún finni fyrir sársauka. Ef hún missir sig og/eða ef einhver talar eða músík heyrist á fæðingarstofunni þá getur það haft varanlegan skaða í för með sér fyrir nýfætt barnið. Já .... ég hélt ég væri búin að heyra alla vitleysuna en þá tók steininn úr.... þegar barnið er fætt þá má hvorki móðir né faðir ekki tala við það í sjö daga og...... svo má alls ekki hlæja eða gráta fyrir framan barnið í framtíðinni. Mér þætti gaman að vita hvaða áhrif þetta hefur á börn Vísindakirkjunnar - ég get ekki ímyndað mér að þau séu tilfinningalega heil.
.... en ferlega eru þau flott saman... eins flott og þetta er klikkað.

miðvikudagur, október 12, 2005

 

Með hellu í eyra


Kann einhver gott ráð við þrálátri hellu í öðru eyranu og stanslausu eyrnasuði, annað en að skella sér í sund og láta sig vaða á botninn í djúpu lauginni. Ég er að brjálast að vera svona í MONO.

þriðjudagur, október 11, 2005

 

Meiri vitleysan....

Ég bara vil ekki trúa því að Skjár einn sé að sýna seríu númer tvö af verstu þáttum sem gerðir hafa verið; Allt í drasli ógeðisþættirnir. Trúi ekki að fólk horfi á þennan þátt og enn frekar trúi ég ekki að það margt fólk horfi á hann að það sé grundvöllur fyrir honum áfram.... ojjjjbarasta.

 

Snjókorn falla


Vaknaði í morgun og leit út um gluggann... viti menn, það snjóaði jólasnjó - æðislegt.
Þegar fyrsti snjórinn kemur á veturna þá fæ ég allskonar fiðring; barnið kemur upp í mér og mig langar til að fara að bruna á snjósleða, fæ algjöran kertafíling og notalegheitafiðring, langar að fara í göngutúr í snjókomunni með húfu og vettlinga og fara svo á kaffihús og fá mér heitt kakó með rjóma. Ég fékk líka svona jólafiðring; langar bara að setja aðventuljósið út í glugga og skreyta..... en verð að bíða að eins með það - rólegan æsing Matthildur !
Bíllinn fór hinsvegar ekki í gang í morgun, hefur greinilega verið eitthvað kalt þannig að við mæðgur græddum þennan fína göngutúr í snjókomunni og ég var eins og snjókarl þegar ég mætti í vinnu allt allt of seint - I love it !!!

mánudagur, október 10, 2005

 

Frétt dagsins

Rak augun í þessa frétt í morgun.
Er fólk almennt ekki með læstar hurðar hjá sér ?
Aumingjans maðurinn samt ef hann er eðlilegur á allan hátt en hefur bara fengið sér aðeins of mikið neðan í því og farið í vitlausa íbúð og vitlaust rúm.... jesús minn !!!
....en plíííísss læsiði dyrunum.

þriðjudagur, október 04, 2005

 

Jahérna hér....

Þessi leikur er að gera mig brjálaða... ég get ekki einu sinni bloggað fyrir honum. Hann klófestir mann um leið og maður kveikir á honum og svo eru nokkrir klukkutímar farnir í einhverja algjöra vitleysu og aldrei gengur hann upp hjá mér. Ég sem var að skammast yfir Brynjari að hanga alltaf í þessum leik..... ég er dottin.

laugardagur, október 01, 2005

 

Crash

Sá snilldar kvikmynd í gær, Crash. Hún var í alla staði frábær; söguþráðurinn eða þræðirnir, persónusköpunin, húmorinn, spennan og leikurinn. Sat límd yfir henni og sveiflaðist frá að vera bálreið út í eina persónuna, vorkenna henni, bálreið aftur út í hana og hlæja svo að henni í endann - fullkomnlega sátt við hana. Var farin að berja á lærin á mér í einu atriðinu sem var svo spennandi að ég fékk gæsahúð að lokum, táraðist og hló svo. Þessi mynd kemst á lista yfir bestu myndir sem ég hef séð. Myndin fjallar um nokkra einstaklinga með mjög mismunandi bakgrunn og sögur þeirra fléttast saman á einn eða annan hátt. Rauði þráðurinn í sögunum er kynþáttamisrétti. Algjör snilld.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

<