fimmtudagur, desember 29, 2005
Annáll 2005
Árið byrjaði eins og venjulega með rakettum og fjöri heima hjá mömmu og pabba. Fengum dýrindis kalkún hjá þeim. Ég var róleg í tíðinni á gamlárskvöld eins og ég hef verið síðan dóttirin fæddist. Naut þess að drekka jólaöl og fylgjast með henni sprengja gamla árið í burtu. Vaknaði svo hress á nýársdag tilbúin í nýtt ár.
Janúar var rólegur og notalegur. Fórum í vikuferð til Reykjavíkur í byrjun janúar, leigðum íbúð með tengdó og versluðum eitthvað á útsölum. Héldum upp á þriggja ára afmæli Lindu Bjarkar þann 16. janúar og buðum nokkrum krökkum og mömmum þeirra (ekki láta pabbarnir sjá sig í svona veislum það er næsta víst).
Lítið markvert gerðist í febrúar. Ágætis loðnuvertíð var og Brynjar var á vöktum.
Í byrjun mars var haldið upp á fimmtugsafmæli mömmu í sumarbústað í Ölfusborgum.
Sumarfríið var tekið snemma á árinu og það var ógleymanlegt. Flogið var ásamt tengdó út til Bandaríkjanna nánar tiltekið Minneapolis þann 4. apríl og svo áfram til Phoenix. Þar tók bróðir Brynjars á móti okkur og við selflutt í glæsihús Robba Guðfinns í Anthem í Phoenix. Síðan tók við hvert ævintýrið á fætur öðru, í stuttu máli: Frá Robba var keyrt til Alla frænda í Los Angeles og kíkt í smá heimsókn (of stutt samt, stoppum lengur hjá Alla næst). Í LA var gist á hóteli í fjórar nætur og Disneyland, Sea World, Hollywood, Beverly Hills, Laguna Beach, Santa Monica, Chinatown og fleira heimsótt. Frá LA var haldið til glamúrborgarinnar Las Vegas og þar gist í þrjár nætur. Þaðan var haldið til Grand Canyon og svo áfram til Phoenix þar sem var gist í tvær nætur, verslað og farið á tónleika með U2 í 17000 manna troðfullri íshokkýhöll og mín fór ekki með myndavél á tónleikana – bömmer.Frá Phoenix var svo haldið niður til Mexíkó þar sem bróðir Brynjars og hans fjölskylda býr. Það var ævintýri útaf fyrir sig að vera í c.a. 200.000 manna bæ þar sem enginn túrismi var fyrir hendi. Við kynntumst frábærri matargerð og er mexíkanskur matur í heiðri hafður á okkar heimili eftir þessa ferð og eldamennskan fór út í sterkari krydd en áður var eins og jalapeno sem er algjörlega ómissandi með mexíkönskum mat. Í Mexíkó dvöldum við í tvær vikur við góðar aðstæður ef frá eru taldar eðlur á veggjum, kakkalakkar og maurar, moskítóflugur og allskyns fleiri óvinir mínir. Ég komst þó heil frá öllu saman enda vorum við á fínum tíma ef hugsað er út í skordýr, hita og raka. Farið var í tveggja ára afmælisveislu þar sem boðið var upp á endalaust magn af bjór og tequila, snekkjusiglingu meðfram ströndum Mex, verslunarleiðangra í gamla markaðinn (svipað og Kolaportið), verslunarleiðangra í Hermosillo (næsta borg við aðsetur okkar), út að borða á besta nautasteikarstað í heimi og fleira og fleira.
Við komum svo aftur heim þann 8. maí og þá var sumarið að byrja á Íslandi en við búin með okkar sumarfrí. Það er strax farið að plana næstu ferð.Ekki var lengi lognmolla í kringum okkur því þann 21. maí var haldið upp á þrítugsafmæli Brynjars í Skátastykkinu hér í bæ. Hingað mættu flestir vina hans úr Reykjavík og gistu. Þetta afmæli er ein sú allra besta skemmtun sem ég hef upplifað enda allir í sínum besta gír.
Í júní byrjaði ég að æfa fótbolta aftur með old-girls og kölluðum við okkur því konunglega nafni Eðalkvenmenn ÍBV. Þetta var hin mesta skemmtun þrátt fyrir smá álagsmeiðsl og vonandi að framhald verði á næsta sumar.Ég varð líka 29 ára gömul í lok júní og fagnaði því í rólegheitum heima hjá mér með Shellmótsgesti utan af landi. Það verður tekið betur á því á næsta ári.
Farið var í helgarreisu til Siglufjarðar í byrjun júlí á árgangsmót hjá Brynjari.Þjóðhátíðin var að vanda tekin með trompi og fengu tveir frábærir peyjar að gista hjá okkur á Faxó yfir hátíðina þeir Gummó og Jónas Logi. Þeir höfðu aldrei upplifað Þjóðhátíð áður og var gaman að upplifa þetta allt saman með þeim og vonandi að þeir komi galvaskir á næstu Þjóðhátíð. Einnig mætti hún Sigga mín eins og vanalega og vonandi að hún haldi því áfram. Þessi Þjóðhátíð var líka aðeins öðruvísi hjá okkur Brynjari því þetta var í fyrsta skiptið sem við vorum sjálf með tjald og buðum við Ásu frænku að vera með okkur í tjaldbúskapnum og sáum við sko ekki eftir því enda með afbrigðum skemmtileg og hress stelpa og sjaldan hefur sést svo flott kaffiborð á föstudeginum eins og í Skvísusundi 16– vonandi að hún verði aftur með okkur á næsta ári og hver veit nema Lotta sjái sér fært að kíkja yfir Atlantshafið aftur.
Ættarmót Reynistaðarfjölskyldunnar var haldið í Goðalandi við Hvolsvöll um miðjan ágúst. Við fórum með tjaldið okkar góða og gistum tvær nætur undir tjaldþaki og skemmtum okkur konunglega með frábæru fólki. Allt gekk vel sem betur fer. Ég og Ása sáum um að skipuleggja mótið og ekki laust við að stressið fylgdi okkur þessa helgina.Lundapysjuvertíðin klikkaði all harkalega og fengum við aðeins tvær pysjur til að sleppa, nánar tiltekið við fengum þær gefins.
Árgangsmót hjá mínum árgangi var haldið í byrjun september og var mikið fjör þar. Ég fór að vísu bara annað kvöldið og skemmti mér vel að ég held og að mig minnir..... eitthvað var tekið of mikið af skotum og þessi fræga setning “það fer aldrei víndropi inn fyrir mínar varir aftur” heyrðist daginn eftir.Litla dóttir mín fór í Íþróttaskólann í september og fór á æfingu í hverri viku í rúma tvo mánuði. Við skemmtum okkur æðislega og ég er alveg á því að þarna fer fyrir upprennandi íþróttastjarna framtíðarinnar.
Sálin hans Jóns míns var með dansleik í Höllinni í lok október og auðvitað mætti mín á það ball... skemmti sér ágætlega en hefur séð hljómsveitina í betra formi.
Í nóvember brugðum við Brynjar okkur til Reykjavíkur og gistum á Nordica Hótel eins og kvikmyndastjörnur. Fórum í þrítugsafmæli til Jónasar Loga og höfðum það huggulegt í Reykjavíkinni.
Desember var yndislegur í alla staði. Farið á eitt jólahlaðborð og svo bakað og skreytt húsið. Minn uppáhaldsmánuður. Jólin hefðu hinsvegar mátt lenda á öðrum dögum svo meira frí fengist en þetta var svona í það allra stysta.
Frænkuklúbburinn okkar frænkna af Reynistaðarfamilíunni gekk sinn vanagang á árinu og svo var mér boðið að vera með í saumaklúbb með öðrum stelpum og þáði ég það enda alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk undir góðu spjall svo ég tali nú ekki um kræsingum.
Ég eignaðist líka yndislega vinkonu á árinu, hana Freyju mína. Kynntist henni í gegnum vinnufélaga Brynjars og þetta er ein sú besta stúlka sem ég hef kynnst. Yfir því er ég mjög þakklát og ánægð þar sem ég skildi flesta mína vini eftir í Reykjavík þegar ég flutti hingað til Eyja.
Ég er svo búin að vera í ýmsustu störfum hérna í Sparó á árinu og hef í rauninni gengið í allt nema gjaldkerann. Núna er ég ánægð í innheimtunni og fíla mig bara vel í því djobbi og það er greinilega eitthvað sem ég á að vera í til frambúðar ef ég fer ekki í kennaranám eða annað kemur uppá.
Held ég hafi yfir engu að kvarta enda allir verið hraustir á árinu ef frá er talið þessi hefðbundnu kvef og “venjulegu” veikindi. Afi minn hefur að vísu verið tæpur til heilsunnar en nær einhvern veginn alltaf að berjast út úr því enda stórkostlegur persónuleiki þar á ferðinni– held hann fari langt á þrjóskunni og jákvæðninni karlinn.
Læt þetta duga í bili og held ótrauð út í 2006. Vonandi verður það mér og mínum og ykkur öllum gott og farsælt.
Gleðilegt ár !
miðvikudagur, desember 28, 2005
Bomba = B-O-B-A
þriðjudagur, desember 27, 2005
Á milli jóla og nýárs
Áttum annars fínustu helgi þó þetta hefði mátt vera aðeins lengra hjá manni. Þurfti að mæta í vinnu í morgun og það var ekki beint skemmtilegt en hafðist. Helgin var í stikkorðum:
- Þorláksmessa: Skötuveisla hjá Maddý og Erlingi-borðað yfir sig. Göngutúr í bænum í góðri stemmningu. Jólatréð skreytt, graflax, hvítvín, jólaöl og snakk. Hlustað á jólakveðjurnar (þangað til "sumir" settu yfir á það allra ójólalegasta sem til er; tónleika með Bubba Morthens - mín var fljót að setja jólageisladisk í tækið smá pirruð).
- Aðfangadagur: Vaknað snemma. Kíkt í skóinn og þar leyndist pakki frá "jólasveininum". Kíkt á barnaefnið. Eftirrétturinn græjaður. Kíkt á barnaefnið aftur og nartað í konfekt. Klárað að taka til og gera fínt. Farið uppeftir til mömmu og pabba og fengið sér flatkökur með hangikjöti (bara á jólum og á þjóðhátíð). Humar, hamborgarhryggur og litla syndin ljúfa í matinn hjá okkur í þessari röð - borðað yfir sig. Opnuðum pakkana. Allir himinlifandi og ánægðir yfir gjöfunum. Bók fyrir svefninn.
- Jóladagur: Vaknað snemma. Kíkt á barnaefnið. Stelpan prófaði allt dótið sitt. Legið í leti fyrir framan sjónvarpið og borðað konfekt. Jólaboð hjá mömmu og pabba með dýrindis kökum og heitum réttum - borðað yfir sig. Hangikjöt hjá mömmu og pabba um kvöldið - borðað yfir sig. Kvöldið klárað heima yfir DVD jólamynd og snakki, ostum og konfekti. Bók.
- Annar jóladagur: Vaknað snemma. Barnaefnið. Leti. Sjónvarpið. Kaffi og konfekt. Notalegheit og sjónvarp um kvöldið. Seint í háttinn og bók.
Það er ekki laust við að maður verði bara saddur af að lesa þetta aftur yfir... jahérna hér... og þar sem ekki viðraði til göngutúrs þá hékk maður bara inni alla helgina. Það var gott að komast í ræktina í hádeginu í dag.
Næst er það svo gamlárskvöld. Held mig inni þegar sprengt er... er bara hrædd við öll þessi læti. Hætti alveg að taka þátt í þessum sprengjum þegar ég skaut einu sinni rakettu beint í fangið á nágrannanum.... hef ekki snert þetta síðan mér brá svo. Svo er ég svo agalega nísk að kaupa þetta dótarí en það er önnur saga.
Hafið það gott!
fimmtudagur, desember 22, 2005
Gleðileg jól öll sömul !
Síðasta færsla fyrir jól og ætla ég að nota tækifærið og óska ykkur öllum og sérstaklega mínum dyggu lesendum og "commenturum":
Gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Bestu þakkir fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Hafið það sem allra allra best
miðvikudagur, desember 21, 2005
Enn eitt æðið
sunnudagur, desember 18, 2005
Tjaldbúinn og rest
Annars var helgin með rólegu móti. Dúllast heima hjá sér og undirbúið jólin. Horfði á Polar Express og hún var algjör snilld, einstaklega vel gerð og flott mynd. Eins voru vinir mínir í Spaugstofunni samir við sig og skemmtu mér konunglega, sérstaklega með nýja jólalagadiskinn sem átti ekki að mismuna minnihlutahópum með lögum eins og "Ég sá pabba kyssa jólasvein" og "Ég á heima á Tælandi".... þeir eru bara yndislegir.
Flott nýja auglýsingaherferðin hjá SPRON. Óhræddir við að skjóta á stóru bankana föstum skotum varðandi íbúðalánin.
Eitthvað er verið að tala um að framundan gætu orðið mestu loftslagsbreytingar í 5000 ár í Evrópu.... fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá þetta var að þá gæti maður kannski farið að sjá ný og ný skorkvikindi, flugur og slöngur... það var svona helsta áhyggjuefnið...hehehehe.
....og ég var að fatta einn kæk sem ég er búin að þróa með mér núna. Þegar ég er í ullarsokkum hér heima hjá mér þá á ég til að skauta á þeim... þeir eru það sleipir að í staðinn fyrir að labba síðustu skrefin þá skauta ég þau (læt mig renna) og svo sný ég mér í hring eins og skautadrottning þegar ég þarf að snúa mér við....hehehehe.... ömurlega hallærislegt.....roðn.
fimmtudagur, desember 15, 2005
My lucky day
Ég er ekki frá því að þessi fimmtudagur sé minn lukkudagur.
Ég fékk myndavélina mína úr viðgerð í morgun og ég er að anda mun léttar fyrir vikið, var farin að hafa áhyggjur af því að vera "stafrænnimyndavélarlaus" um jólin.
Ég náði loksins loksins að tengja DVD Kids tækið við "Manchester United" spilarann sem ég fjárfesti í í gær og þvílíkur léttir. Ég var farin að sjá fram á það að þurfa að fá hina og þessa dvd spilara lánaða úr búðum til þess eins að athuga hvort þeir virkuðu með þessu leiktæki. Var heppin, fékk æðislega þjónustu í Brimnes, lánaði mér spilarann heim og bingó - tækið virkaði með honum - hjúkket.
Byrjaði daginn svo á að pakka inn sælgæti í jólapoka fyrir jólaskemmtun í Sparó (ekki leiðinleg byrjun á degi). Lauga kom og lánaði mér "Christmas with the Kranks", hún ætlaði víst að fara að skila henni en hugsaði svona fallega til mín áður og ákvað að trilla með hana hingað niður í Sparó. Sigrún nágranni keypti sér um daginn Polar Express og var að tilkynna mér það að hún hefði skrifað hann fyrir Lindu mína á disk svo hún gæti átt hana.... jiiii bara hundrað flottir hlutir í dag.
....eitt sem á eftir að græjast fyrir jólin eru myndirnar sem ég bíð enn eftir úr framköllun frá bonusprint... síðasti séns fyrir jólakortin er 21 des og ef myndirnar verða ekki komnar þá þá bara prenta ég þær sjálf út - engin úlfaldi úr mýflugu þar sko.
Annars er ég bara lukkuleg með þennan dag og ætla að halda áfram að vera lukkuleg og brosa.
miðvikudagur, desember 14, 2005
Eru ekki allir að komast í jólaskap?
Kíkið á www.kvikmynd.is og smellið á "erlendar auglýsingar" - þarna er hún nefnilega gamla góða Coke auglýsingin !!!
Jólakortin
Er það bara ég eða....
fékk fjöldapóst frá Póstinum í gær með þeim skilaboðum að núna gæti maður gert kortin á jólakortavef Póstsins og þetta væri voða sniðugt og auðvelt mál. Ég kíkti nú þarna inn fyrir forvitnissakir og varð nú bara aldeilis hlessa á verðinu. Hvert kort kostar heilar 200 kr (með burðargjaldi) sem þýðir að í mínu tilfelli með 40 kort myndi ég borga 8000 kr. fyrir pakkann.... shit..... of mikið fyrir minn smekk.
Að gamni reiknaði ég út hvað hvert kort kostar hjá mér; ég sendi 40 myndir í framköllun í gegnum Bandaríkin www.bonusprint.com og kostar stykkið 14 kr. Þar ofaná leggst tollur sem er ca. 10 kr. á mynd = 24 kr. á mynd. Ég keypti 40 kort í pakka á 600 kr og stykkið er því á 15 kr. svo er það burðargjaldið 50 kr. Samtals : 89 kr. jólakortið frá mér og fyrir 40 kort er pakkinn á 3560 kr sem er að mínu mati bara fínasta verð.
Ég keypti hinsvegar kortapakka frá Krabbameinssjúkum börnum á 1000 kr eins og ég geri alltaf en ég tel það ekki hér inní enda um öðruvísi kostnað að ræða að mínu mati.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Aðventan
Á þessum tíma fæ ég alltaf svo góða og yndislega tilfinningu fyrir lífinu. Maður verður eiginlega bara væmin sko en það má alveg. Aðventan er algjörlega mitt uppáhald og ég reyni að njóta hans í botn. Skrýtið því á meðan ég nýt aðventunnar í dag og vilji að þessir dagar líði sem lengst þá var það allt öðruvísi þegar ég var lítil. Aðventan var í mínum huga tími sem átti að líða og það helst strax svo jólin kæmu. Þá beið maður eftir jólunum sjálfum. Núna er aðventan jólin í mínum huga og bara allur desember finnst mér á allan hátt yndislegur. Það er verið að stússast við að baka, skrifa á jólakort, þrífa með jólalögin í botni, horfa á jólabíómyndir, skreyta , kaupa gjafir og pakka þeim inn og síðast en ekki síst að fylgjast með barninu sínu upplifa þennan spennandi tíma. Þau eru svo einlæg í þessu öllu saman og það er svo mikið um að vera hjá þeim. Jólasveinninn kemur og gefur í skóinn og ég veit ekki hvor er spenntari fyrir því ég eða dóttirin. Litla skvísan var komin í náttfötin klukkan fimm í gærdag... bara svo hún yrði tilbúin í rúmið sko eins og hún sagði sjálf.
Það þarf ekki mikið til að gleðja þessi litlu skinn. Ein mandarína og lítið sápustykki vakti mikla lukku í morgun þegar mín kíkti í skóinn sinn. Alveg frábært bara.
Á fimmtudaginn byrjar svo hér í vinnunni leynijólasveinaleikur og það eru allir meira en lítið spenntir fyrir því batteríi.
Það er svo nóg að gera í að horfa á jólamyndir fram að jólum; ætla að horfa á Jólasögu í einhverri útgáfunni, Christmas with the Kranks og Polar Express. Hlakka bara til ..... með malt og appelsín og kertaljós og núna vantar bara snjóinn.
Að lokum vildi ég óska mínum elskulegu foreldrum innilega til hamingju með 30 ára brúðkaupsafmælið í dag. Flott hjá þeim. Sannar að brúðkaupið sjálft þarf ekki að vera eins og klippt út úr tískublaði til að hjónabandið endist - hún mamma mín gifti sig nefnilega í svörtum kjól....hehehehehe.
mánudagur, desember 12, 2005
Robbie
Robbie Williams var með svakalega tónleika í gær á Rúv... og ég missti næstum því af þeim. Vá hvað hann var góður og ég var með GÆSAHÚÐ þegar hann tók Angel eða reyndar þegar mannfjöldinn tók lagið fyrir hann....vá - hefði viljað vera þarna og ætla mér reyndar að komast á tónleika með kappanum fyrr en síðar. Hann er snillingur.
...en hvernig stendur á því að Rúv auglýsi ekki svona viðburð hjá sér... ég hafði ekki hugmynd um þessa tónleika sem voru í gær og var búin að taka mér dvd og það var ekki fyrr en myndin var búin að á kom inn í miðja tónleikana og ég var ekki par ánægð með það. Kláraði tónleikana samt sem áður og vona svo að þetta verði allt saman endursýnt innan fárra vikna. Þegar ég ætlaði svo að fara að sofa og var að fara að slökkva á gemsanum mínum sé ég ekki skilaboð frá Ester frænku..... "22:30 tónleikar með Robbie Williams í Berlín á Stöð 1. Njótið nú stelpur mínar... ;o)
Af einhverjum ástæðum var ég ekki vör við þegar þetta mjög svo mikilvæga skilaboð kom inn í símann minn fyrr um kvöldið, ekki skál fyrir því, en takk samt Ester mín fyrir að hafa gert allt í þínu valdi til að minna mig á þetta.
sunnudagur, desember 11, 2005
Kompás í kvöld
fimmtudagur, desember 08, 2005
Leikskólamál og jólaundirbúningur
Eins og er er stelpan mín á besta leikskóla í heimi, Rauðagerði. Ég er ofboðslega ánægð með hann og starfsfólkið og finnst sorglegt ef Rauðagerði hættir að starfa eftir einhvern tíma og hér í bæ verði bara einn leikskóli...hef heyrt þetta en veit ekki hvort það sé mikið til í því og vona að það sé ekki rétt. Ég var ekki lengi að ákveða á hvaða leikskóla ég vildi sjá stelpuna mína á en fannst hinsvegar gott að geta valið um þrjá kosti.
Næsta haust mun hinsvegar taka til starfa stór leikskóli og þá er spurning hvort það verði stefnulaus leikskóli eða hvort hann verði deildaskiptur eftir stefnum, hvort börnin týnist ekki í svo stóru batteríi og það glatist þessi litla eining og heimilislegheitin sem t.d. Rauðagerði býr yfir. Því miður ég er bara ekki að fíla þetta akkúrat núna og ég vil alls ekki að gamli leikskólinn minn og núna leikskólinn dóttur minnar eigi eftir að loka (ef það gerist þá sem ég vona ekki).
Hvað varðar jólaundirbúning er kellingin að missa sig. Tók mig til og skreytti allt hátt og lágt um síðustu helgi og dóttirin hjálpaði auðvitað og Brynjar henti útiseríunni og greninu á handriðið. Búin að baka eina sort og ætla að baka aðra í kvöld. Á næstunni verður svo horft á Jólasögu (Christmas Carol) með Ebenezer Scrooge sem er skylduáhorf og eitthvað sem kemur manni í endanlegt jólaskap. Held ég sé búin að horfa á allar útgáfur á þeirri sögu; teiknimynd, disneyteiknimynd, leikrit, bíómynd, grínbíómynd, brúðumynd og Prúðuleikaramynd. Algjörlega besta jólasaga fyrr og síðar að mínu mati. Elska jólaundirbúninginn og ætla að njóta hans í botn með familíunni.
miðvikudagur, desember 07, 2005
Allt er þegar þrennt er
2. Komst að því að jólagjöfin hennar dóttur minnar þarfnast nýs dvd spilara til að hægt sé að nota hana.
3. Stafræna myndavélin bilaði og hún þarf í viðgerð á "besta" tíma, aðventunni. Vitum ekki hvort við fáum hana fyrir jól - hey við erum með lítið barn og hvenær tíma ársins er skemmtilegast að taka myndir..... JÓLIN.
....þessi þrjú atriði sem öll komu í sömu vikunni stressuðu mig gífurlega mikið upp og ég fékk þetta líka þvílíka pirringskast yfir þessu. Ég hinsvegar ákvað að láta þetta ekki pirra mig og málin eru í dag svona; Úlpan fer í viðgerð, vonandi flýtiviðgerð og ég fæ úlpuna hennar mömmu lánaða á meðan. Það verður líklega keyptur dvd-spilari með heimabíókerfi.... já svona er þetta bara, mig hefur lengi langað í heimabíó. Myndavélin verður vonandi ekki lengi í viðgerð en ef hún verður lengi í viðgerð þá verðum við að notast við gömlu "ekki" stafrænu myndavélina, framkalla á disk og velja svo úr myndir til að framkalla - pínku dýrara en það verður bara að hafa það.
Ég veit að ég á stundum til að gera úlfalda úr mýflugu en .... svona er ég bara og stundum er mikið hlegið af mínum minnstu áhyggjum sem mér finnst oft stórar áhyggjur.
þriðjudagur, desember 06, 2005
7 hlutir...
1. Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey.
-vonandi eignast fleiri börn
-fara í skíðaferð til Evrópu eða Ameríku
-fara á tónleika með Robbie Williams
-fá fullt af hrukkum og grátt hár (þá er öruggt að ég deyi gömul)
-læra betur á gítarinn
-kaupa mér saxófón
-verð að læra að taka bensín á bíl
2. Sjö hlutir sem ég get gert.
-eldað
-bakað
-spilað fótbolta
-vélritað mjög hratt
-geri oft marga hluti í einu
-stressað mig yfir engu
-skíðað
3. Sjö hlutir sem ég get ekki gert.
-rúllað upp á tunguna (virðast allir geta það nema ég)
-sungið
-dansað
-farið í kaf með opið fyrir nefið (held alltaf fyrir nefið)
-stungið mér
-unnið með rafmagn (get varla stungið í samband)
-synt flugsund
4. Sjö hlutir sem heilla mig í fari annarra.
-heiðarleiki
-vinsamlegheit
-bros
-húmor
-traust
-greind
-ákveðni
5. Sjö frægar manneskjur sem eru kúl.
-Robbie Williams
-Donald Trump
-Oprah Winfrey
-Kevin Spacey
-Gummi Jóns
-Páll Óskar
-Jói Fel
6. Sjö setningar sem ég nota mikið.
-…ógeðslega
-…jiii
-…ha…
-…þetta er bara vesen
-…englastelpan mín (um dótturina)
-...ertu ekki að grínast ?
-...nei grín
7. Sjö hlutir sem ég sé nákvæmlega núna.
-tölvan
-síminn
-kaffibolli
-fullt af blöðum
-heftari
-jólaseríur
-post it
Mig langar að sjá Ásu frænku, Rögnu Jenný og Bjarna Kristjáns svara þessu !!!
mánudagur, desember 05, 2005
DVD-Kids
Keypti DVD-kids handa Lindu Björk í jólagjöf helgina sem ég var í Reykjavík. Þetta tæki er "tengt" við DVD spilara og þannig er hægt að leika sér í þessu. Utan á pakkanum stóð að hægt sé að nota það við Playstation 2 tölvur (sem eru líka DVD spilarar) og ég kaupi þetta auðvitað í góðri trú og voðalega ánægð með þetta alltsaman og veit að stelpan verður mjög spennt og ánægð yfir þessu en..... Ég þakka bara mínum sæla fyrir að hafa ákveðið í gærkvöldi að tengja þetta svona og hafa þetta tilbúið svo stelpan geti nú farið strax og leikt sér þegar hún væri búin að opna pakkana á Aðfangadagskvöld......nefnilega...... þegar ég opna kassann þá stendur á miða inní kassanum að tækið sé bara hægt að nota með nýjustu gerðinni af Playstation 2. Mín tölva er frá 2002 og því ekki nýjasta gerð og þess vegna er ekki hægt að nota tækið við hana. Ég varð ekki ánægð með þetta og er búin að vera frekar pirruð og fúl yfir þessu í dag. Talaði við einhvern gaur hjá fyrirtækinu í morgun og bað hann vinsamlegast um að breyta merkingunni á kassanum þanni að þar stæði "hægt að tengja við NÝJUSTU gerðir PS2". Ég hefði ekki viljað sjá stelpuna mína taka þennan pakka upp á jólunum og geta svo ekki notað þetta... ojjj hvað það hefði verið fúlt.
Staðan er því þannig í dag að ég get í rauninni ekki skilað þessu því ég er búin að henda öllum kvittunum fyrir að ég keypti þetta í Hagkaupum... ég keypti líka leik með og kostar þetta samanlagt um 8 þúsund krónur. Ef ég myndi ná að skila þessu þá fengi ég líklega bara innleggsnótu í Hagkaupum og ég er ekki á leiðinni þangað fyrir jól. Ég myndi líka lenda í vandræðum með að kaupa handa henni aðra jólagjöf því ég var í vandræðum með að finna eitthvað handa henni fyrir ... áður en ég keypti þetta tæki.
Það er því eiginlega bara eitt í stöðunni. Kaupa DVD spilara og ég get fengið svoleiðis, ágætan spilara í BT á 4900.
Ætla aðeins að hugsa þetta mál en grunar að ég endi á að kaupa mér spilara... held það sé langauðveldast í stöðunni en ferlega var þetta fúlt... svona óþarflega fúlt og algjört athugunarleysi hjá þessu DVD kids company - trúi ekki að þeir hafi lent í svona fyrirspurnum og leiðindarmálum áður.
föstudagur, desember 02, 2005
Hvað er þetta með rennilása ?
Ég skil ekki rennilása. Mér finnst bara pirrandi að vera í nýlegri, stíheilli úlpu með ónýtum rennilás. Á ekki rennilásinn að duga eins og úlpan ? Er hægt að velja sér úlpur með spes góðum rennilásum. Á maður að spyrja næst þegar maður kaupir sér úlpu; "en segðu mér .. hvernig er rennilásinn ? hvaða merki er hann ?", ég held það kæmi svipur á afgreiðslufólk ef þau fengju þessa spurningu... eða "vá varstu að fá þér nýja úlpu.... æðisleg, rennilásinn er sko góður, átti einu sinni úlpu með svona rennilás". Mér finnst að þetta ætti að vera svona. Mér finnst vesen að fara með úlpuna á saumastofu og bíða í viku eftir að það sé settur nýr rennilás á hana + það kostar líka og svo er ekki gott að vera úlpulaus í þessum kulda.
Bara svona smá hugrenningar hjá mér á köldum föstudegi, held ég verði að plata mömmu til að skipta um rennilás og í svona tilfellum sé ég eftir að hafa verið óþekk í handavinnutímum í den.